22.04.1924
Neðri deild: 53. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1300 í C-deild Alþingistíðinda. (2805)

138. mál, happdrætti

Jakob Möller:

1. umr. er til þess að menn átti sig á stefnu málsins og geti gengið strax úr skugga um, hvort þeir muni hallast að henni eða ekki. Og frá því sjónarmiði talaði jeg áðan. Jeg get nefnilega alls ekki fallist á, að stofnað verði til þessa fyrirtækis, hvorki sem ríkiseignar eða einstaklingseignar. Jeg er því mótfallinn, að ríkið sje að setja á laggirnar fjárglæfrafyrirtæki til ágóða fyrir sig og narra menn til að kaupa drættina, í þeirri von, að þeir fái vinninga, sem þeir væntanlega hljóta aldrei. Hjer er verið að narra menn til að láta stórfje af hendi, sem auðvitað rennur að mestu út úr landinu, og svo sitja menn eftir með sárt ennið. Það er því enn ósæmilegra og enn meira blygðunarleysi í því, að láta ríkið taka þessa starfsemi að sjer. Það verður heldur ekki skilið annan veg en sem beita, þessi 10%, sem renna eiga til landbúnaðar og sjávarútvegs. Ríkinu er innan handar að ná þessum skatti með öðru og heiðarlegra móti.

Ef tala ætti um breytingar, þá væri það helst að snúa hlutfallinu við, þannig, að ríkissjóður fengi 27% en leigutakarnir 10%. Því að ef á að brúka nafn landsins til þess — og það er vitanlegt, að þessir menn treysta sjer ekki til að koma á fyrirtækinu nema með því að nota nafn landsins — þá á landið líka að fá ágóðann. En eins og jeg hefi sagt, jeg skoða þetta mál svo, að hjer sje fyrst og fremst verið að hafa fje af landsmönnum, en ekki verið að gefa þeim neitt. Jeg er sannfærður um, að hjer standa engir menn að baki, sem vilja gefa okkur eitt eða neitt. Hinsvegar veit jeg vel, að fyrir háttv. flm. vakir það, að ríkissjóður fái með þessu móti álitlegar tekjur, en jeg er sannfærður um, að niðurstaðan verður sú, að landið tapar á þessu. Og hvað „lotteríi“ alment viðvíkur, þá held jeg, að við ættum frekar að banna alt slíkt en stofna til þess.