29.04.1924
Neðri deild: 58. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 991 í B-deild Alþingistíðinda. (281)

1. mál, fjárlög 1925

Forsætisráðherra (JM):

Jeg vildi hjer minnast á 1. brtt. á þskj. 460. Hv. Ed. samþykti að veita 16 þús. kr. til að byggja fangahús í Vestmannaeyjum og á Ísafirði.

Á báðum þessum stöðum hafa verið fangaklefar. Hegningarhúsið á Ísafirði brann fyrir skömmu, sem kunnugt er. í Vestmannaeyjum er heldur ekkert fangahús sem stendur.

Jeg þarf ekki að tala um nauðsyn þessa máls. Það liggur í augum uppi, að þar, sem margt fólk flykkist saman, eins og einkum í Vestmannaeyjum, getur oft komið upp órói, svo að fangahús sje óhjákvæmilegt.

Um fangahús í Vestmannaeyjum var áætlun fyrir hendi, og var þar gert ráð fyrir, að húsið kostaði 11 þús. kr., en sú aths. fylgdi með, að með ákveðnum breytingum, er vel mátti gera, mætti komast af með undir 2000 kr. minna. Háttv. þm. Vestm. (JJós) taldi þó engan vafa á, að 8000 kr. mundu ná langt, ef enn meira yrði sparað. Á Ísafirði liggur að vísu engin áætlun fyrir, en vonandi verður sama upphæð nægileg þar.

Þessi fangahús eru nauðsynleg, og því verður að leggja áherslu á að koma þeim upp, enda þótt þau verði ef til vill ekki sem fullkomnust. Jeg skal ekki orðlengja um þetta, en vona, að háttv. deild greiði þessari fjárveitingu atkv.

Jeg ætla mjer ekki að minnast mikið á einstakar brtt. Jeg hefi þegar minst á styrkinn til sjúkraskýla. Jeg álít, að það sje rjettast að veita þann styrk í einu lagi, án þess að binda hann við nokkur sjerstök hjeruð, heldur ákveði stjórnin hverju sinni, hversu honum skuli varið.

Þá skal jeg taka það fram, að jeg álít, að styrkur til stúdenta sje yfirleitt um of skorinn við neglur sjer, og mjer finst háttv. fjvn. ganga of langt í því að lækka hann. Jeg skal ekki fara fleiri orðum um styrkinn til stúdenta við háskólann hjer. En jeg vil taka það fram, að styrkur til stúdenta, sem eru við nám erlendis, má alls ekki vera lægri en hann er áætlaður í frv. nú, jafnvel ekki lægri en hann var í frv. stjórnarinnar upphaflega. Því þessir stúdentar missa samt styrk, sem þeir hafa treyst, að þeir fengju, og sem þeir hafa haft fulla ástæðu til að ætla, að þeir fengju. Þeir hafa ástæðu til að treysta því, að þeir fái í 4 ár styrk, sem samsvari Garðstyrknum, svo það er frá þeirra sjónarmiði gabb, ef þeir fá þennan styrk ekki áfram. Annars hafði jeg vonast eftir, að hv. fjvn. ljeti að minsta kosti sitja við það, sem hv. Ed. gerði í þessu máli, og jeg vona, að þessi hv. deild geri það.

Hvað snertir fjárveitingu til tímakenslu við mentaskólann, þá skal það tekið fram, að jafnvel 15000 kr. er of lágt, en hitt skiftir ekki miklu máli, hvort upphæðin er 13000 eða 15000 kr., því að hvorttveggja er aðeins áætlunarupphæð.

Hins vegar tel jeg það alls ekki vel ráðið að fella niður styrk til þess að gefa út kenslubók í veraldarsögu. Það er þegar byrjað á því verki, og þeir, sem að því hafa unnið, verða illa úti, því þeir hafa treyst því að fá fjárveitingu í því skyni, og það er mjög nauðsynlegt að fá veraldarsögu á móðurmálinu. Jeg vona því, að háttv. deild sjái sjer fært að lofa þessari fjárveitingu að standa.

Þá leggur hv. fjvn. til, að styrkur til Ingibjargar Guðbrandsdóttur fyrir leikfimiskenslu falli niður. En mjer finst alls ekki rjett að fella þennan styrk niður, því að hann hefir staðið í mörg ár og borið ágætan árangur.

Jeg skal líka taka það fram, að mjer finst það hart að skerða svo styrk til Jóhannesar L. L. Jóhannssonar eins og hv. fjvn. hefir gert. Mjer hefði fundist rjettast að láta 6000 kr. standa. Það hefir verið minst á það hjer í deildinni, að þetta væru eftirlaun, en það er alls ekki rjett. Það eru starfslaun. Þessi maður var tekinn úr embætti sínu til þess að starfa að íslenskri orðabók. Jeg hefði ekki getað fundið að því, þó laun hans hefðu verið lækkuð eitthvað, en það er ekki rjett að lækka þau eins mikið og hv. fjvn. hefir gert. Þau hefðu gjarnan mátt standa eins og hv. Ed. ákvað þau. Mjer finst og algerlega óþarft að vera að klípa 200 kr. utan úr styrknum til Þórbergs Þórðarsonar. Mjer finst hann hefði gjarnan mátt standa eins og hann var ákveðinn í hv. Ed.

Þá vil jeg minnast nokkuð á brtt. á þskj. 463, III, um að lækka svo mjög styrk til Hannesar Þorsteinssonar. Þar finst mjer nokkuð langt gengið. Sá styrkur hefir verið veittur í mörg ár, og allir, sem til þekkja, munu vera sammála um, að styrkurinn hafi borið mjög góðan árangur. Þessi maður er líka farinn að eldast og hefir sannarlega unnið fyrir því að fá að halda styrknum áfram. Og þó að gert sje ráð fyrir því, að hann fái launahærra embætti en hann hefir haft, þá er þess að gæta, að hann byrjar þar með lægstu byrjunarlaunum. Jeg hygg, að brtt. þessi sje komin fram sökum þess, að flm. hennar búist við, að þessi maður muni fá hærri laun en hann fær. Mjer finst, að það verði að taka tillit til hins mikilhæfa vísindamanns, meira en gert er með þessari brtt.