07.04.1924
Efri deild: 42. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1307 í C-deild Alþingistíðinda. (2812)

122. mál, verðtollur á nokkrum fyrirliggjandi vörubirgðum

Fjármálaráðherra (JÞ):

Jeg mun hafa getið þess í umr. um verðtollinn, að því er snertir þetta atriði, að halda verðinu niðri á hinum fyrirliggjandi vörubirgðum, eða að leggja gjald á þær, að jeg sem fjrh. myndi síst verða á móti því, ef þingið sæi sjer fært að ganga inn á hina síðarnefndu braut. En enn sem komið er hefir ekki verið hægt fyrir stjórnina að gera neinar ráðstafanir til að halda verðinu niðri á hinum fyrirliggjandi vörubirgðum, þar sem legið hefir fyrir þinginu að láta verðtollinn ná einnig til þeirra. En jeg skal geta þess, að aðgæsla hefir verið höfð á því, hvort hinar stærri verslanir hjer hafi hækkað vörubirgðar sínar, síðan innflutningsbannið og verðtollurinn gengu í gildi, og hefir reynst, að þær hafi ekki hækkað. Um þetta er vitanlega ekki hægt að segja í hverju einstöku tilfelli, en eins og jeg tók fram, hafa hinar stærri verslanir ekki hækkað birgðir sínar.

Háttv. flm. (JJ) gerði ráð fyrir, að frv. þessu yrði vísað til nefndar, og er jeg ekkert á móti því. Skal jeg því fylgja þingsköpum og ræða ekki einstakar greinar þess nú, heldur geyma það til 2. umr.