29.04.1924
Neðri deild: 58. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1001 í B-deild Alþingistíðinda. (283)

1. mál, fjárlög 1925

Árni Jónsson:

Jeg byrja þar, sem hv. 3. þm. Reykv. (JakM) hætti. Jeg vil strax geta þess, til þess að fyrirbyggja misskilning, að þessi ummæli, að umræddur maður vildi selja ættjarðarást sína, eru ekki eftir mjer höfð. (JakM: Rjett). Jeg hefi ekki breytt skoðun í þessu máli. Stefna þessa þings hefir verið sú, að takmarka öll útgjöld ríkissjóðs eins og unt er. Hafa jafnvel allar verklegar framkvæmdir ríkissjóðs verið stöðvaðar. Hefir einnig verið höggið allnærri stofnunum, sem ýmsir telja vera hyrningarsteina þjóðfjelagsins, háskólanum og hæstarjetti. Stingur það því einkennilega í stúf við það, sem á undan er gengið, er menn, sem gert hafa sitt til þess að skerða hæstarjett og veikja rjettaröryggið í landinu, nú vilja stórhækka laun þessa eina embættismanns. Jeg hefi áður lýst yfir þeirri skoðun minni, að þegar um laun embættismanna er að ræða, beri ekki að miða við það, sem tíðkast annarsstaðar, heldur verði þau að miðast við okkar eigin getu. Þetta er mjög varhugaverð leið, sem þeir menn vilja halda, sem fara fram á launahækkun til próf. Nordals. Leiðir hún af sjer klíku- og bitlingapólitík. Er það einnig mjög eftirtektarvert, að á sama tíma og verið er að hlaða undir próf. Nordal, er öðrum kennurum háskólans ýmislega ráðstafað, að þeim fornspurðum og þvernauðugt, og þeir hraktir frá háskólanum. Má t. d. nefna dr. Alexander Jóhannesson, og er jeg þar fyllilega sammála hv. þm. Dala. (BJ). Dr. Alexander er merkur vísindamaður og líklega lærðasti málfræðingur, sem við eigum hjer nú. En rit hans eru ekki við alþýðuhæfi og ekki eins aðgengileg almenningi og rit próf. Nordals. Hjer er hart að gengið, er hann er tekinn og borinn fram á altari hins. Jeg hefi áður lýst yfir því, að háskólanum er mikill hnekkir að missa þennan mann. Býst jeg ekki við því, að þeim mönnum, sem vilja hrekja hann frá háskólanum, gangi þar til umhyggja ein fyrir þeirri stofnun.

Einnig hygg jeg, að próf. Nordal mundi geta haldið áfram ritstörfum sínum, þótt hann starfaði við erlendan háskóla. Eru þess mörg dæmi, að Íslendingar, sem dvalið hafa langvistum erlendis, hafa haft mikil áhrif á alþýðumentun okkar. Má nefna Þorvald Thoroddsen. Hefir enginn Íslendingur á síðari tímum verið jafnmikið lesinn og hann. Þegar rætt er um launakjör próf. Nordals hjer og laun þau, sem honum eru boðin ytra, verður jafnframt að líta á það, hve mikið fæst fyrir hverja krónu á hvorum stað. Próf. Nordal hefir gefið út bók um Snorra Sturluson, Völuspá og er nú með sýnishorn ísl. bókmenta. Fyrir þessar bækur hefir hann fengið styrk úr sáttmálasjóðnum. Mjer er sagt, að sá styrkur nemi ekki minna en 3–4 þús. kr. Einnig hefi jeg frjett, að hann hafi fengið fráan forleggjara að bókum sínum, en aðrir hafa orðið að borga með þeim, jafnvel svo mikið, að styrkurinn hrökk ekki til.

Jeg tek undir með hv. 3. þm. Reykv. um styrkveitingu til Skúla V. Guðjónssonar læknis. Skúli V. Guðjónsson er óvenjulega áhugasamur og duglegur. Efnahagur hans er sjálfsagt bágborinn, og er hann vafalaust stórskuldugur. Styrkur sá, sem honum hefir verið veittur, kemur ekki að hálfum notum, nema hann fái hann áfram, enda hefir Læknafjelagið ákveðið, að til þess að læknir fái að stunda hjer sjergrein í læknisfræði, skuli hann hafa numið hana í að minsta kosti 2 ár.

Þá er till. um að fella niður styrkveitingu til útgáfu veraldarsögu handa mentaskólanum. Menn þeir, sem að þessari útgáfu vinna, eru sögufróðir og vel ritfærir. Tel jeg illa farið, ef við eigum lengur að notast við kenslubækur á erlendum tungum, þegar annars er kostur. Hefir það ill áhrif á tungu vora og læðast úr þeim erlend orð og orðskrípi inn í alþýðumál vort. Treysti jeg því fastlega, að þessi till. verði feld.