01.05.1924
Efri deild: 59. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1316 í C-deild Alþingistíðinda. (2832)

144. mál, hafnarlög fyrir Vestmannaeyjar

Flm. (Jóhann Jósefsson):

Frv. þetta er flutt samkvæmt beiðni bæjarstjórnarinnar í Vestmannaeyjum.

Eins og kunnugt er, er svo ákveðið í lögum nr. 60 frá 1913, að gera skuli höfn í Vestmannaeyjum, og undanfarið hefir verið unnið að hafnargerð þar. En það verk á samt sem áður langt í land með að verða fullkomið, því ekki er búið að fullgera öll þau mannvirki, sem nauðsynleg eru, og þau, sem þegar eru komin, eru langt frá að vera tryggilega gerð. Verkið hefir yfirleitt gengið mjög illa, og það er ekki hægt að kenna það náttúruöflunum einum, heldur líka mönnum þeim, sem staðið hafa fyrir framkvæmd verksins.

Það hefir einkent þessa hafnargerð að alt, sem þar hefir verið gert, hefir verið gert af of veikum viðum. Verktakinn hefir gert sjer mikið far um að hafa sem minst í alt borið, og hafa garðarnir við það orðið ótraustari en áætlað hefir verið, og hafa áætlanir þó síst verið of öruggar. Nú er þessu verki svo komið, að tveir skjólgarðar hafa verið gerðir, og þó er annar þeirra ekki fullger. Það er það eina, sem gert hefir verið fyrir það mikla fje, sem varið hefir verið til þessarar hafnargerðar. En þó er ekki nema hálfsögð hrakfallasaga þessa fyrirtækis, því í vetur kom það í ljós, að báðir þessir skjólgarðar eru að gefa sig, svo búast má við, að þeir verði að mjög litlum notum, ef ekki verður hægt að gera við þá í sumar. Þó er bæjarsjóður Vestmannaeyja kominn í stórkostlegar skuldir við verktakann, firmað Monberg í Kaupmannahöfn, og verður því að leggja feiknahá gjöld á bæjarbúa til þess að geta staðið í skilum með þær skuldir.

Í lögunum frá 1913 eru taldir upp nokkrir tekjustofnar, sem bæjarsjóðinum er heimilt að nota til byggingar og viðhalds hafnarvirkjanna. Þessir tekjustofnar hafa flestir verið notaðir, og þó eru tekjurnar ekki meiri en svo, að þær nægja varla til daglegra útgjalda við höfnina. Og það er von, að svo sje, því það er varla mögulegt að leggja mikil gjöld á skip fyrir að nota þessa ófullkomnu höfn.

Nú hefir bæjarstjórnin óskað eftir að fá heimild til þess að leggja á lóðargjald og nota þau til hafnargerðarinnar. Jeg skal í því sambandi geta þess, að lóðargjöld til bæjarsjóðs eru nú tekin af lóðum í kaupstaðnum samkvæmt bæjarstjórnarlögunum, og er því hjer um nýjar álögur að ræða.

Jeg skal svo ekki fara fleiri orðum um þetta frv. nú, en vona, að hv. deild lofi því að ganga óhindruðu í gegnum deildina.