17.03.1924
Neðri deild: 25. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 9 í D-deild Alþingistíðinda. (2860)

78. mál, kennsla heyrnar og málleysingja

Magnús Jónsson:

Það er auðvitað gott fyrir heyrnar- og málleysingja, ef þeir eru óánægðir með þessa breytingu, að vita sig njóta góðs hugar hjá hv. fjvn. En jeg veit, að það muni þó ekki duga þeim mikið, ef þessi breyting stefnir til þess, sem skaðar þá í raun og veru.

Jeg get ekki neitað því, að jeg varð fyrir dálitlum vonbrigðum, þegar jeg sá þetta fyrsta sparnaðarfrv. frá hv. fjvn. það hafa komið ýmis sparnaðarfrv. frá einstökum þm., en mjög hefir þeim verið fundið til foráttu, að þau væru á víð og dreif. En þess mátti vænta af hv. fjvn., að hún hefði meira yfirlit, og að þær tillögur, er hún flytti til sparnaðar, yrðu allvíðtækar, en ekki gripið á því einu, sem ekkert munar um. En svo, þegar þessi hv. nefnd grípur fyrst í taumana, þá eru það daufdumbarnir, sem fyrir því verða. Þetta fyrsta hljóð frá hv. nefnd minnir á málsháttinn gamla: „Parturiunt montes, nascitur ridiculus mus“. Fjöllin tóku jóðsótt, og fæddist hlægileg mús.

Jeg er sammála hv. frsm. (TrÞ) um það, að þetta fólk er ákaflega mikil olnbogabörn. Það er ekki gott fyrir oss að gera oss hugmynd um, hvílíkur kross það er að vera sviftur því, sem kemur oss í samband við aðra menn. Má segja, að þetta fólk sje einskonar smámannkyn út af fyrir sig. Það, sem þetta óhamingjusama fólk hefir helst ánægju af, er það að vera saman, hitta hvað annað, og þykir því mikið fyrir því að þurfa að tvístrast. Það er alveg óhjákvæmilegt að taka mikið tillit til þessa atriðis, og í mínum augum er þetta sterk ástæða fyrir því, að skólinn sje best settur í Reykjavík. Hjer eru möguleikar á því, að þeir geti haft ofan af fyrir sjer með handverki eða einhverri iðn, sem þeim er meinað að vinna í sveit. Hjer ber líka fleira fyrir þá að sjá sjer til skemtunar en þar, og er það mikils virði, því augun eru þeim meira en okkur hinum.

Hvað kostnaðarhlið málsins viðvíkur, þá má vel vera, að skólinn sje óþarflega dýr, eftir því sem hann gæti verið hjer í Reykjavík. En munur ætti að vera á því samt, hvað kenslan gæti orðið ódýrari hjer en uppi í sveit, því hjer er oft hægt að fá kenslukrafta til aðstoðar,

þar sem menn verða að láta sjer lynda að hafa heilan kennara annarsstaðar.

Af öllum þessum ástæðum er jeg því mótfallinn, að farið verði nú að taka til þeirra ráða að flytja skólann burt úr Reykjavík. Og að fara nú að spara á þessum hluta þjóðarinnar, finst mjer engu líkara en að taka lambið fátæka mannsins og skera það. Hitt er alt annað mál, að reynt sje að koma skólahaldinu hjer svo fyrir, að það geti orðið ódýrara, án óþæginda fyrir nemendurna. Að það sje æskilegt, býst jeg við, að allir geti verið sammála um.