17.03.1924
Neðri deild: 25. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 14 í D-deild Alþingistíðinda. (2866)

78. mál, kennsla heyrnar og málleysingja

Magnús Guðmundsson:

Þar sem hv. frsm. (TrÞ) hefir talað sig dauðan í þessu máli, þá finn jeg mig knúðan að tala nokkur orð.

Hv. 2. þm. Reykv. (JBald) klifar á því, að nefndin hefði átt að rannsaka þetta mál frá rótum. En það segir sig sjálft, að verði stjórninni falið málið, þá er það hennar að gera það. Nefndin hefir samt leitað upplýsinga hjá þeim manni, sem áður hafði skólann á hendi og er þessum málum kunnugur, og tjáði hann sig breytingunni samþykkan og taldi hana mundu vera til bóta.

Hv. frsm. (TrÞ) svaraði því, sem fram kom, að þetta ætti að vera gert börnunum til meins. Þarf jeg ekki að eyða orðum að því, hvað slík aðdróttun er ástæðulaus. Og hvað einangruninni viðvíkur, ef skólinn verður fluttur í sveit, þá skal jeg aðeins taka það fram, að fingramál er mjög auðvelt að læra. Og að börnin hafa verið send í sveit að sumrinu, sýnir, að það hefir verið álitið holt fyrir þau að vera þar. Annars er aðalefni þessarar till. það, eins og jeg tók fram, að fela stjórninni að rannsaka það og gera þær ráðstafanir því viðvíkjandi, sem hún telur heppilegar. Það getur alls ekki verið starf þingnefnda að rannsaka mál eins og þetta, til þess brestur þær tíma og þess vegna gerir till. ráð fyrir, að stjórnin rannsaki málið.