22.03.1924
Neðri deild: 30. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 19 í D-deild Alþingistíðinda. (2873)

86. mál, bann gegn innflutningi útlendinga

Björn Líndal:

Jeg tel fulla þörf á, að eitthvað sje gert til þess að hindra aðstreymi erlendra manna hingað. En mjer þykir þó ákvæði till. fullströng, og mundi því hafa viljað koma með brtt. við hana. Jeg mun þó greiða atkvæði mitt með till. — Í tilefni af meðferð hæstv. forseta á 7. málinu á dagskránni, prentun umræðuparts Alþingistíðindanna, sem rekið var undir atkv. umræðulaust, og allmörgum að óvörum, meðan mannfátt var í deildinni, vil jeg leyfa mjer að vekja athygli hans á því, að jeg mun greiða atkvæði með 5. málinu á dagskránni. — En nú þarf jeg að bregða mjer frá um stund, og er honum bent á þetta, til þess að hann geti látið greiða atkvæði um málið á meðan, ef honum, einhverra hluta vegna, skyldi vera umhugað um að koma í veg fyrir, að það verði samþykt.