29.03.1924
Efri deild: 32. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 21 í D-deild Alþingistíðinda. (2880)

110. mál, sparnaður við starfrækslu ríkisrekstrarins

Jónas Jónsson:

Jeg skal geta þess, að jeg er mjög undrandi yfir því, að á slíkum tímum, sem nú eru, skuli hafa verið dregið að skipa sparnaðarnefnd. Jeg er líka mjög undrandi yfir þeim drætti, sem hefir orðið á því, að hv. fjvn. afgreiddi málið, því allir vita, að fjvn. hefir mjög lítið að gera, og mjer er sjerstaklega kunnugt um það, því jeg var í fjvn. í fyrra. Og jeg vil beina þeirri spurningu til formanns nefndarinnar, hv. þm. Seyðf., hvað valdi slíkum drætti. Jeg álít heppilegt, að allir stjórnarflokksmennirnir í fjvn. vildu skýra afstöðu sína til þessa máls, því að þeim mun drátturinn að kenna. Jeg get raunar vel getið mjer þess til, af hvaða ástæðum meirihl. nefndarinnar hefir dregið málið svo óhæfilega á langinn, en jeg vil ekki fara frekar út í það að sinni.

En það orkar ekki tvímælis, hve mikil þörf er á því, að eitthvað sje gert í þessu máli, nú á þessum tímum, þegar allir vita, að fjárhagur ríkissjóðs er svo bágborinn, að tekjumar verða allar að ganga upp í laun embættismanna og til þess að borga af skuldum. Jeg skil því alls ekki í meðferð hv. fjvn. á þessu máli, nema ef vera skyldi, að hún dragi málið á langinn til þess að ekkert verði gert í því á þessu þingi.

Og nú vil jeg beina þeirri spurningu til hæstv. forsrh., hvort hann vill ekki reyna að fá þingflokkana til þess að leggja til einn mann í hverja af þessum nefndum, menn sem vildu vinna að því endurgjaldslaust að athuga, hvernig mætti helst spara við starfrækslu ríkisrekstrarins. Jeg veit, að það vildi engin nefnd vinna að því endurgjaldslaust að endurskoða alt launakerfi ríkisins. Það væri svo mikið starf, að það væri fjarstæða að hugsa sjer slíkt. Hinsvegar er mjög líklegt, að flokkarnir vildu, af áhuga fyrir málinu, leggja til einn mann í hverja nefnd hver þeirra. Svo gætu þessar nefndir skift með sjer verkum, þannig, að þær tækju hver sína grein embættakerfisins til athugunar. Ein gæti t. d. tekið dómsmálin, önnur skólamálin, þriðja póstmál og símamál, fjórða heilbrigðismálin, fimta kirkjumálin o. s. frv.

Jeg vil minna hæstv. forsrh. á það, að hann skipaði einu sinni 2 menn í nefnd til þess aðeins að athuga skólamálin, og sú nefnd kostaði landið mörg þúsund krónur, og jeg vil því spyrja hæstv. forsrh., hvernig hann hugsar sjer, að hægt væri að fá eina nefnd til þess að athuga alt embættakerfið, ríkinu að kostnaðarlausu. Það er auðsætt, að annaðhvort verður að skifta þessu starfi, sem hjer er um að ræða, milli fleiri nefnda, eða það verður tómt „humbug“, þar eð stjórninni verður ekki veitt nein heimild til þess að leggja fram fje í þessu skyni.

Ef hæstv. forsrh. heldur við sinn upphaflega skilning á þessu máli, þá hlýtur það því að verða til þess að eyða málinu. Það er líka ómögulegt að fá 3–5 menn í eina nefnd, sem hefðu verulega vit á öllum þeim málum, sem hjer koma til greina. Lögfræðingar bera t. d. lítið skyn á kenslumál, og prestar hafa lítið vit á dómsmálum, til að taka einhver dæmi.

Mjer virðist hæstv. forsrh. hugsa sjer þá leið að leitað væri álits yfirmanna stofnana og starfsmanna ríkisins um það, hvern sparnað þeir teldu mögulegt að framkvæma, hver á sínu sviði, þannig, að biskup væri spurður um prestana, landlæknir um læknana, yfirpóstmeistari um póstmálin, o. s. frv. þetta tel jeg vera rjett, en það verður þó að gæta þess að láta þessa menn ekki hafa neitt úrslitavald um það, hvað væri reynt að spara. Við, sem nú eigum sæti í allshn., leituðum t. d. álits hæstarjettar viðvíkjandi fækkun dómenda í rjettinum, en við sáum okkur hins vegar ekki fært að taka það til greina, þótt þeir mótmæltu fækkuninni. Hins sama yrðu þær nefndir að gæta, sem tækju embættakerfið yfirleitt til athugunar, því að það er oftast ekki til neins að spyrja formenn stjettanna að því, hvað af sínu fólki þeir megi missa, því þeir þykjast oftast nær ekki mega missa neitt, en þó er rjett að leita álits þeirra, því vera má, að sumir vilji með góðri samvinnu hjálpa til að spara, hver á sínu sviði. Hinsvegar hefir ekkert að þýða að spyrja slíka menn um það, hvort þeir telji að lækka megi laun starfsmanna þeirra, því að það kemur þeim ekkert við, og þeir verða yfirleitt að beygja sig fyrir vilja nefndarinnar og síðan þingsins.

Til þess að menn skilji betur, hvílík þörf er á slíkri endurskoðun, vil jeg geta þess, hversu ástatt er með póstflutningana. Sá póstur, sem fluttur er á landi, er altaf fluttur í koffortum, og þau eru svo þung, að þau eru póstflutningsins, og 1/3 kostnaðarins liggur því í flutningi þeirra. Og þetta lætur póstmeistari viðgangast, þrátt fyrir það, þótt vitanlegt sje, að póstinn má hæglega flytja í töskum eða pokum. Enginn „privat“-maður mundi láta slíkt viðgangast. En stjett, sem er orðin gömul og stirðnuð, hefir ekki gáfur til að skilja þetta, nje heldur framtakssemi til þess að koma nokkru í framkvæmd, þótt hún sjái, að eitthvað fari aflaga. Svo hefir yfirpóstmeistari 4000 kr. aukabitling, tilefnislaust og án lagaheimildar. Mjer þætti gaman að vita, hvort hæstv. forsrh. (JM) vildi leggja til, að hann væri feldur niður, svo að hann fengi aðeins almenn embættislaun. Annars þætti mjer gott, ef hæstv. forsrh. (JM) vildi upplýsa, hvernig stendur á þessum aukabitling.

Jeg vil svo að endingu beina þeirri spurningu til hæstv. forsrh. (JM), hvort hann vill ekki gera tilraun til þess, í samráði við þingflokkana, að fá nokkrar nefndir til þess að vinna að endurskoðun alls launakerfisins, endurgjaldslaust. Og ennfremur vil jeg spyrja hæstv. forsrh. (JM), hvort hann sje okkur ekki sammála um það, nú, þegar fjárhagur ríkisins er svo bágborinn, að allar framkvæmdir ríkisins hafa verið stöðvaðar, að eitthvað þurfi að gera fjárhagnum til viðreisnar, og hvort honum finst ekki ástæða til að gera eitthvað meira í þessu máli en hv. fjvn. hefir gert. Og ennfremur vil jeg beina þeirri spurningu til formanns fjvn., hv. þm. Seyðf. (JóhJóh), hversvegna hafi dregist svona lengi hjá nefndinni að gera nokkuð í þessu máli.