29.03.1924
Efri deild: 32. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 27 í D-deild Alþingistíðinda. (2883)

110. mál, sparnaður við starfrækslu ríkisrekstrarins

Forsætisráðherra (JM):

Það er rjett skilið hjá hv. frsm. (GÓ), að jeg er ekki á móti nefndarskipun í þessu skyni. En að því er snertir ræðu hv. 5. landsk. þm. (JJ), þá skal jeg taka það fram, að mjer finst, að best mundi vera að hafa eina nefnd, eða ef fleiri nefndir væru hafðar, þá tel jeg nauðsynlegt að hafa eina yfirnefnd, sem gæfi heildaryfirlit, þótt aðrar nefndir athuguðu hinar einstöku greinir embættakerfisins. Þetta væri nauðsynlegt, sökum þess, að margar nefndir, sem störfuðu hver í sínu lagi, gætu komið fram með alólíkar tillögur, sem gengju í bága hver við aðra, og slíkt væri auðvitað mjög óheppilegt.

Hvað því viðvíkur, að flokkarnir skipi milliþinganefndir til þess að athuga þetta mál, þá skal jeg taka það fram, að jeg efast um, að hver flokkur fyrir sig hafi yfir nógu mörgum mönnum að ráða hjer í bæ, sem hafi tíma til þess að taka slíkt starf að sjer endurgjaldslaust og hafi auk þess nauðsynlega þekkingu á þessum málum. Annars má vel vera, að gott sje að leita til flokkanna til þess að fá menn til að starfa endurgjaldslaust. En jeg veit þó, að til eru menn, sem ekki mundu ófáanlegir að leggja á sig nokkurt erfiði í þessu skyni án verulegs endurgjalds. Annars get jeg ekki sagt neitt ákveðið um, hverja aðferðina jeg muni hafa, eða hvað gert verði, fyr en jeg hefi borið mig saman við hina ráðherrana.

Það er alveg rjett hjá hv. 5. landsk. þm. (JJ), að það er ekki hægt að fara einungis eftir því, hvað formenn embættisflokkanna segja um fækkun eða launalækkun innan stjettarinnar, því að þeim finst oftast þeir ekkert mega missa af sínu fólki. En jeg efast ekki um, að þeir muni þó vilja líta á nauðsyn ríkissjóðs og aðstoða stjórnina til að spara með því að fækka starfsmönnum sínum, en um launalækkun býst jeg við, að ekki verði mikið.

Hvað sem öðru líður, get jeg ekki fallist á, að hafðar sjeu margar nefndir. Að öðru leyti verður málið vandlega athugað, en jeg tel æskilegt og heppilegt fyrir stjórnina, að hún fái einhverja slíka aðstoð, er hjer um ræðir.

Að því er snertir viðbótina við laun yfirpóstmeistara, skal jeg taka það fram, að jeg held að það standi í sambandi við breytingu þá, sem varð á stöðu hans, þannig, að þegar hann varð aðalpóstmeistari, fjekk hann þessar 4000 kr. í staðinn fyrir aukatekjur, sem hann hafði meðan hann var póstmeistari hjer í Reykjavík. Mjer er þó ekki fullkunnugt um það, því að atvinnumálaráðherra hafði með þetta að gera. Hvort það er löglegt, get jeg ekki heldur fyllilega sagt um. Jeg hefi ekki athugað það neitt sjerstaklega, því að það heyrir líka undir annan ráðherra.