25.04.1924
Neðri deild: 55. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 46 í D-deild Alþingistíðinda. (2899)

103. mál, endurheimt ýmsra skjala og handrita

Flm. (Ásgeir Ásgeirsson):

Jeg hefi fulla ástæðu til að ætla, að þessi till. muni ekki sæta mikilli andspyrnu, og skal því ekki vera langorður.

Eins og kunnugt er, er heildsalan á steinolíu, tóbaki og víni nú í höndum ríkisins. Smásalan á steinolíu og tóbaki er aftur í höndum einstakra manna, svo er og um vínið, að frátaldri smásölunni í Reykjavík einni. Það virðist sjálfsagt að koma á fastri reglu um þetta. Með öðrum þjóðum, sem hafa einkasölu á einstökum vörutegundum, er það föst regla, að heildsalan ein er í höndum ríkisins, en með smásöluna fara einstakir menn. Í till. minni er þó ekki fólgið neitt í þá átt, að óheppilegt sje að hafa smásöluna í höndum ríkisins á meðan vín eru hjer seld á annað borð. En það er víst, að talsvert má spara með því að hafa smásöluna í höndum einstakra manna, og þá virðist sjálfsagt að haga því svo. Jeg skal ekki segja, að hjer hefði verið um nokkurn sparnað að ræða, ef vínsalan hefði upphaflega verið falin landsversluninni, en eins og nú er komið, er það alt að helmings sparnaður.

Að því er snertir laun þess manns, sem útsöluna hefir á hendi, þá getur þar verið um tvent að ræða: annaðhvort að hann fái víst hundraðsgjald af því, sem hann selur, eða þá að hann fái fasta þóknun fyrir starfa sinn. Hjer er farin síðari leiðin. Hefi jeg álitið hana betri frá því sjónarmiði, að með því er ekki sköpuð nein hvöt hjá þeim manni til að auka söluna. Er lögð áhersla á það, að ekki sjeu viðhöfð nein auglýsingabrögð, eins og annars tíðkast um sölu á ýmsum óþarfa.

Eins og kunnugt er, þá er verslunin hjer mjög dauf um þessar mundir, og myndi því vera hægt að komast að ágætum kjörum með útsölu hjá einhverjum smásala, sem nóg hefir húsrúm og fólk, en lítið fyrir það að gera. Munu slíkir menn sjálfsagt ekki gera miklar kröfur til gróða, en láta sjer nægja að fá nóg starf fyrir fólk sitt. Nú mun kostnaðurinn við útsölu vínsins vera um 40 þús. kr. Jeg geri ráð fyrir, að fá megi tilboð um að leysa þetta sama verk af hendi fyrir 20 þús. krónur. Auðvitað er sjálfsagt, að starfið sje boðið út og að þeim sje veitt það, sem lægst býður, — þó því aðeins, að hann sje viðurkendur sómamaður, því í því liggur tryggingin fyrir því, að hagsmunir þjóðarinnar sjeu ekki bornir þar fyrir borð. Á því er mikil áhersla í till., að útsölustöðum skuli ekki fjölgað, og yfirleitt ekkert gert til að auka sölu á vínum. Því þrátt fyrir háan toll og verslunarágóða, er þjóðfjelagið betur komið með því, að sem minst sje selt af þeirri vöru. Við megum og ekki gleyma, að nú er ekki að ræða um nein bjargráð fyrir ríkissjóðinn, þar sem vínverslunin er, heldur vorum við kúgaðir til þessa af erlendri þjóð. En þótt þessu sje svo varið, þá er samt afleitt, að mikið fje fari í súginn við afhendinguna á óþarfanum. Er þvert á móti sjálfsagt, að afhendingin verði ríkinu sem kostnaðarminst. Það er einungis það, sem þessi till. fer fram á, og vona jeg því, að hv. deild verði ljúft að samþ. hana.