30.04.1924
Neðri deild: 59. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1012 í B-deild Alþingistíðinda. (293)

1. mál, fjárlög 1925

Halldór Stefánsson:

Jeg ætla aðeins að gera grein fyrir till. okkar Norðmýlinganna um niðurfelling á styrk til Hannesar Þorsteinssonar. Eins og menn vita, hefir honum verið veitt umfangsmikið embætti og aðstoðarmannsembættið verið numið úr gildi. Eru því engin líkindi til þess, að hann geti unnið að því, sem styrkurinn er ætlaður til. En ef mönnum fyndist að ske kynni, að hann gæti sint starfinu lítilsháttar, fluttum við einnig varatillögu. Af þessum ástæðum teljum við sjálfsagt að fella niður þessa fjárveitingu, og í raun og veru að mestu leyti aðeins formsatriði, þar sem telja má ólíklegt, að starfið verði unnið, eða þó a. m. k. bagalítið eða bagalaust, þótt það falli niður að sinni.

Hæstv. forsrh. (JM) gat þess í ræðu í gær, að þessi maður (Hannes Þorsteinsson) hefði vel unnið fyrir því fje, sem honum hefir verið veitt að undanförnu í þessu skyni, og í þessari brtt. okkar liggur heldur alls ekki neitt, sem gefur það í skyn, að hann hafi ekki gert það; þarf því ekki að ræða það heldur nú, heldur hitt, að ástæður allar eru nú orðnar svo breyttar, að það eru engar líkur til þess, að hann geti unnið að þessu lengur svo nokkru nemi. Honum er nú ætlað að fara með störf, sem tveir menn hafa unnið að undanförnu. Þess vegna álít jeg þetta vera mestpart formsatriði, að fella þessa fjárveitingu niður og báða þess, að einhver komi fram, sem vill taka þetta starf að sjer og til þess er fær og tíma og ástæður hefir til þess að gefa sig við því starfi. Kemur þá fyrst til álita, hvort rjett sje að veita aftur í fjárlögum fje til þessa.