09.04.1924
Neðri deild: 46. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 63 í D-deild Alþingistíðinda. (2931)

124. mál, sparisjóður Árnessýslu

Fjármálaráðherra (JÞ):

Jeg átti sæti í þeirri nefnd, sem bar þessa till. fram, og er afstaða mín til hennar þá upplýst. Hjer er ekki neitt farið fram á það, að gripið verði fram fyrir hendur bankastjórnar Landsbankans, því að það er tekið fram í greinargerðinni, að bankastjórnin eigi að hafa ákvörðunarvaldið. Hitt er annað mál, að það er ekki sama fyrir bankastjórnina, hvort hún er viss um að hafa samþykki þings og stjórnar eða ekki til þess, að hún gangi hjer lengra en hún hefir enn skuldbundið sig til. Það liggur í hlutarins eðli, að meðan sparisjóðsstjórnin og stjórn Landsbankans hafa einar ást við, þá hefir bankastjórnin hlotið að hafa vaðið fyrir neðan sig. Því bankanum ber engin skylda til að líta svo mjög á almenna hagsmuni, en á þá verður þingið aftur á móti að líta. Það getur því gefið bankastjórninni ástæðu til að fara lengra, ef upplýst er, að það sje svo litið á af þingi og stjórn, að taka beri tillit til almennra hagsmuna.

Því hefir verið barið við, að menn viti ekki neitt um ástæður annara sparisjóða, og því sje varlega farandi að ráðast í þetta, fordæmisins vegna. En jeg vil í því sambandi benda á það, að það stendur hvergi annarsstaðar á landinu svo á, að Landsbankinn hafi útibú þar, sem svo stór sparisjóður er fyrir. Hjer er og á það að líta, að mjög ítarleg athugun liggur hjer til grundvallar, og ber bæði fjhn. og fyrverandi fjrh. (KlJ) saman um það, að aldrei myndi koma til þess, að ríkissjóður þyrfti að greiða neitt vegna þeirrar ábyrgðar, sem um var að ræða. Ætti þetta, að því er mjer finst, að hafa talsvert að segja. Það er og auðsætt, að stjórn bankans hefir farið mjög varlega í tilboði sínu. Hún hefir t. d. gætt þeirrar varúðar að gera ekki ráð fyrir, að neitt komi inn af þeim „miður vel trygðu lánum“, sem mats- nefndin talar um. Jeg er nú vel kunnugur á þessum stöðvum, og er jeg samdóma fyrverandi fjrh. (KlJ) um, að óhætt muni vera að ábyrgjast 80%, og að ekki muni tapast meira en svo sem helmingur af þessum „miður vel trygðu lánum“. Hinu þarf varla að gera ráð fyrir, að nokkuð tapist á þeim lánum, sem matsnefndin taldi trygg, þar sem svo verður að líta á sem hún hafi fremur verið of ströng en væg í mati sínu.

Meiningin með þessu er vitanlega sú, að innstæðueigendur geti nú þegar fengið greitt 80% innstæðu sinnar. Þetta, að Landsbankastjórnin býðst til þess að ábyrgjast 70% af þessu fje, þýðir vitanlega ekki annað en það, að hún býðst til þess að greiða út 70%. En verði þessi till. samþykt, þá yrði munurinn sá, að eigendur fengju 80% útborgað af fje sínu þegar. En búast má við því, að nokkuð langur tími muni líða þangað til hægt er að gera upp til fulls, hvað eigendur gætu fengið útborgað umfram hina fyrstu greiðslu.