09.04.1924
Neðri deild: 46. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 65 í D-deild Alþingistíðinda. (2932)

124. mál, sparisjóður Árnessýslu

Frsm. (Jakob Möller):

Hæstv. fjrh. (JÞ) hefir að nokkru leyti tekið af mjer ómakið að svara spurningu hv. 4. þm Reykv. (MJ), hver væri tilgangur með þessari þingsályktunartillögu. Þessu hefir hæstv. fjrh. (JÞ) svarað því, að tilgangurinn væri sá að láta í ljós við bankann, að því fari svo fjarri, að þingið átelji hann fyrir það að teygja sig svo langt í þessu efni sem hann teldi fært, að það miklu fremur hvetji hann til þess að gera sitt besta. Þetta er alls ekki flutt í þeim tilgangi að taka ákvörðunarrjettinn af bankastjórninni í þessu efni, heldur aðeins til þess að gefa henni til kynna vilja þingsins um það, að hún gangi hjer eins langt og hún telur fært. Bak við tillöguna liggur það einnig, að eftir því, sem fjárhagsnefnd gat myndað sjer skoðun í málinu, þá áleit hún hættulaust, eða hættulítið, að tryggja innstæðueigendum 80% af fje sínu. Nefndinni virtist augljóst af skýrslu rannsóknarnefndar, að hún hefir verið mjög ströng í dómum sínum um tryggingar. Enda er auðsjeð, að bankastjórnin fer mjög eftir þessari skýrslu, og hefir fylgt henni í því, sem nefndin hefir talið tapað og illa trygt, sem samtals nemur 28% af innstæðufjenu. Og því býðst bankinn til þess að ábyrgjast eigendum 70% af fjenu. Það er því auðsjeð, að bankinn hefir viljað hafa vaðið fyrir neðan sig, eins og nefndin telur skylt og sjálfsagt, meðan hann fær ekki hvatningu frá þinginu til þess að teygja sig eins langt og hann sjer sjer frekast fært, því að hvatning frá stjórninni vegur ekki eins mikið í þessu efni eins og hvatning frá Alþingi sjálfu.

Hv. samþm. minn, 4. þm. Reykv. (MJ) virtist furða sig á því, að nefndin vildi láta bankann gera það, sem hún teldi ríkissjóði ófært, og vildi líkja þessu máli við frv. um stofnun búnaðarlánadeildar. Án þess að jeg vilji fara langt út í þær umræður, þá sje jeg ekki annað en hjer sje alt öðru máli að gegna. Bankinn er þegar kominn inn á þetta svið. Hann hefir tjáð sig reiðubúinn að taka ábyrgð á sparisjóðnum. Spurningin er aðeins um það, hvort hann ábyrgist þessum hundraðshlutum meira eða minna af innstæðunni. Þetta er því alls ekki „princip“-mál, heldur vafamál, hversu langt gengið sje.

En þegar svo bankinn hefir samþykt það að taka sjóðinn í sínar hendur og tryggja innstæðueigendum 70%, þá mætti ætla, að í nokkuð mikið væri ráðist, ef greiða ætti alt út í einu. En það er ekki meiningin. Bankinn hefir áskilið sjer rjett til þess að greiða innstæðuna smátt og smátt, eftir ákveðnum reglum. Svo hvað það snertir skiftir engu, þó að við bætist þessi 10%, því að tíminn, sem bankinn hefir áskilið sjer til greiðslunnar, ef hann vill nota þær varúðarreglur, sem um þetta hafa verið settar, verður þá þeim mun lengri.

Nefndin verður að líta svo á, að tap bankans geti í allra mesta lagi orðið 8%. Hjer er áskilið að afskrifa 20%, en tapaðar og illa trygðar útistandandi skuldir eru taldar 28%. Nefndin þóttist sjá, að töluvert af þeim skuldum, sem illa trygðar eru taldar, eru raunar vel trygðar. Þó vill nefndin ekki fortaka, að tapið kunni að geta orðið alt að þessu. En hún telur bankanum svo mikils virði að fá sparisjóðinn undir sína umsjá, að sá hagur gæti fullkomlega unnið upp, þótt eitthvert smátap kynni að verða nú. Það er alkunnugt um stór verslunarfyrirtæki, sem hafa mikil viðskifti, að þótt þau tapi í svip, þá eru þau þó talin mikils virði. Og með auknu veltufje má bjarga þeim með miklum hagnaði, ef úr greiðist og betri tímar koma. Þess er nú að vona. Og nefndin telur vafalaust, að þessi sparisjóður geti rjett við, þótt hann eigi nú við þröng- an kost að búa, og þá verði Landsbankinn ekki lengi að vinna upp lítilsháttar tap, sem nú kynni á að verða.