09.04.1924
Neðri deild: 46. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 67 í D-deild Alþingistíðinda. (2933)

124. mál, sparisjóður Árnessýslu

Magnús Torfason:

Jeg get verið hv. 4. þm. Reykv. (MJ) þakklátur fyrir sín orð. Jeg þykist vita, að hann sje ekki mjög á móti ráðstöfun þessari í sjálfu sjer, heldur sjeu andmæli hans fram komin af því, að hann vill, að málið verði skoðað gaumgæfilega, og vilji hann með þessu móti eggja fram allar varnir, sem til eru gegn málinu.

Hv. 3. þm. Reykv. (JakM) og hæstv. fjrh. (JÞ) hafa talað það sem þarf um þetta mál frá almennu sjónarmiði. Jeg stend því aðeins upp til þess, sem kunnugur maður, að gefa nokkrar sjerstakar upplýsingar.

Í fyrsta lagi vil jeg geta þess, að það, að þetta mál er komið fyrir þingið, stafar af því, að Landsbankinn leit svo á, að þar sem hjer væri verið að stofna sel frá Selfossútibúinu, þá væri sjálfsagt, að þingið lýsti sínu áliti, eins og jafnan hefir verið venja, þegar bankinn hefir sett nýtt útibú. Því að til þess er ætlast, að sparisjóðurinn haldi áfram sem sjerstök stofnun undir stjórn Landsbankans.

Í öðru lagi er það kunnugt, að þegar bankinn fór fram á að greiða 70%, þá vildi hann vera þrautviss um, að hann tæki ekki að sjer neitt, sem hugsanlegt væri, að hann tapaði á. Og þetta var eðlilegt. Á þessum tímum kemur það einlægt betur og betur í ljós, hversu afaráríðandi það er, að Landsbankinn standi vel að vígi. En hitt er annað mál, hvort bankinn gerði það að teygja sig nokkru lengra í tilboði sínu, ef það væri vilji þings og stjórnar. Ef hann tapar, þá hefir hann samþykki sinna húsbænda, og er það ábyrgðarminna fyrir bankastjórnina.

Út af þeim andmælum, sem hjer hafa fram komið, vil jeg taka það fram, að ýmsar skuldir, sem áður voru taldar altapaðar, hafa þegar verið borgaðar. Og bendir þetta á það, að allmikið muni fást af þeim skuldum, sem ekki hafa verið taldar vel trygðar. Jeg skal líka geta þess, að um það leyti, sem þetta tap var gert upp, stóð illa á fyrir mönnum eystra, vertíð hafði með öllu brugðist, hagur manna þröngur og litið svart á framtíðina. Nú hefir verið ágæt vertíð, og er enn hlaðafli. En þetta gerir það að verkum, að stofnunin stendur miklu betur að vígi.

Jeg er ekki í neinum vafa um það, að með tíð og tíma verður þetta gróðafyrirtæki fyrir Landsbankann. Nú er innstæðufje útibúsins ca. 400 þús. kr. Með fje sparisjóðsins er það aukið um 1200 þús. kr., því þótt eitthvað kunni að verða borgað út, þá er meiri hlutinn af sparisjóðsbókunum veðsettur Landsbankanum. Aðalsumman, sem út þarf að borga, er dálítil skuld við Íslandsbanka. Jeg býst því við því, að alt falli í ljúfa löð. Annars skal jeg geta þess, að það hefir komið til mála að hjálpa sparisjóðnum til þess að halda áfram sem sjerstök stofnun. Og jeg játa, að þeir menn, sem slíku fara fram, hafa mikið til síns máls. Þetta hefði mátt takast, ef ekki hefði strandað á því, að fje vantaði til þess að leggja í sjóðinn. En væri það fyrir hendi, þá er jeg ekki í vafa um, að hann gæti orðið sjálfstætt gróðafyrirtæki.