09.04.1924
Neðri deild: 46. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 69 í D-deild Alþingistíðinda. (2934)

124. mál, sparisjóður Árnessýslu

Magnús Jónsson:

Jeg sje það á ræðum hæstv. fjrh. (JÞ), hv. 3 þm. Reykv (JakM) og loks hv. 1. þm. Árn. (MT), að jeg hefi skilið tillöguna alveg rjett. Hún þýðir ekki annað en það, að hjer er settur sterkari samningsaðili gagnvart Landsbankanum heldur en stjórn sparisjóðsins.

Hv. 1. þm. Árn. (MT) sagði, að meðan bankinn var að semja við sparisjóðsstjórnina, vildi hann hafa vaðið fyrir neðan sig, en nú er hann tryggari, er hann hefir þing og stjórn að baki sjer. En jeg sje ekki, að þing og stjórn geti neinu breytt, hvað hag bankans snertir. Þing og stjórn getur að vísu ráðstafað reitum bankans, en hitt er annað mál, hvort rjett sje, að þeir aðiljar hvetji bankastjórnina til að gera samninga, þar sem vaðið er ekki haft fyrir neðan. Jeg held ekki. Jeg hefi kynt mjer þetta mál eftir föngum, og eftir því hefir mjer virst, að samningarnir væru eins aðgengilegir og frekast er hægt að ætlast til. Bankinn gat ekki gengið lengra með fullri skynsemd. Hann vill borga það, sem trygt er, og svo mikið af hinu, sem inn kemur. Þetta er það fylsta, sem innstæðueigendur geta farið fram á. Enginn getur krafist meira en hann á í raun og veru í því fyrirtæki, sem hann hefir sett peninga sína í, og fái hann meira, þá er það af því, að einhver annar borgar það fyrir hann, gefur honum það. Og jeg tel alveg óforsvaranlegt gagnvart bankastjórninni, ef þing og stjórn ætlar að neyða hana til þess að taka á sig ábyrgð, sem frá hennar sjónarmiði er ekki forsvaranleg. Annars er það alveg rjett hjá hv. 1. þm. Ám. (MT), að það er ekki af því, að jeg vilji leggjast með fjandskap á móti málinu, sem jeg tek í þennan streng, heldur aðeins af því, að jeg vil, að það sje athugað.

Það er rjett, að hjer stendur nokkuð sjerstaklega á, þar sem bankinn hefir útibú á þessu sama svæði, sem sjóðurinn hefir starfað á, og það er auðskilið, að ef bankinn gefur kost á þessari ábyrgð, þá er það í von um hagnað af aukinni bankastarfsemi. En það er augljóst, að sje það rjett, sem fullyrt er, að það geti ekki komið til mála að ábyrgjast innstæðueigendum nema það, sem þeir í raun og veru eiga að fá, en það liggur í þeim fullyrðingum, að óhætt sje að ábyrgjast 80% af innstæðunum, þá græða þeir ekkert, þó að tillagan verði samþykt, nema ef telja skyldi það, að þeir fá ef til vill nokkru fyr greidda seinni borgun innstæðunnar. Hagsmunirnir eru þeir einir, ef þeir skyldu nú ekki eiga í raun og veru 80% í sjóðnum. Það er auðvitað, að allir gleðjast yfir því, að batnað hefir í ári þar eystra. En við þekkjum allir vel, hvernig getur farið um fyrirtæki, sem talin eru örugg. Alt í einu eru þau orðin vafasöm, ótrygg, hættuleg, gjaldþrota. Hinir viðsjárverðu tímar ganga, ef svo mætti segja, bæði yfir rjettláta og rangláta. Landsbankastjórnin getur metið ástæðurnar betur en nokkur annar. Hitt er annað mál, ef þing og stjórn vill hjálpa þeim þar eystra til þess að stilla ábyrgðinni fyrir þessum 10%, sem á milli ber, þá hefir þingið vald á því. En það á þá að gera það af sínum eigin efnum.

Hv. 3. m. Reykv. (JakM) sagði, að þetta mál, sem liggur hjer fyrir, væri ekki hliðstætt frv. um stofnun búnaðarlánadeildar. En mjer virðist það alveg hliðstætt. Landsbankinn vill borga 70% af innstæðufje sparisjóðsins, en ekki 80%. Það er munurinn á því, sem hún telur forsvaranlegt og ekki forsvaranlegt. Eins er um lán til landbúnaðar, að bankinn vill lána til landbúnaðar, en hann telur ekki þá aðferð færa sem frv. fer fram á. Hjer er aðeins um það að ræða, hvað bankastjórnin telur forsvaranlegt og hvað ekki, í báðum tilfellunum.

Annars er vonandi, að sjóðurinn rjetti svo við, að málið verði ópraktiskt. Og það verður það, þegar svo rætist úr, að tapið verður minna en 20%. En eins og nú horfir, er ekki hægt að ganga lengra en fært þykir frá sjónarmiði bankans.