09.04.1924
Neðri deild: 46. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 74 í D-deild Alþingistíðinda. (2936)

124. mál, sparisjóður Árnessýslu

Frsm. (Jakob Möller):

Það eru aðeins örfá orð, viðvíkjandi því, sem hv. samþm. minn, 4. þm. Reykv. (MJ) sagði. Hann mintist meðal annars á það, að ekki væri rjettlátt, að menn fengju borgað meira út en þeir ættu inni. En hann gætir þess ekki, að eign hvers innstæðueiganda er í rauninni meiri en innstæðan, þ. e. arðsvonin af fyrirtækinu í framtíðinni. Annars gæti vel verið, að samningar tækjust frekar, ef bankinn tæki að sjer að borga eitthvað ákveðið og ekki meira, tæki þetta upp á „akkorð“. Færi svo, að málsaðiljum þætti það tiltækilegra, hefði jeg auðvitað ekkert á móti því.

Þá taldi hv. þm. (MJ), að þetta væri þvingun fyrir bankann. Það er víst orðin tíska að kalla alt þvingun, hvernig sem því er farið. En hjer er alls ekki um neina þvingun að ræða, heldur aðeins ýtt undir bankastjórnina að fara eins langt og hún sjer sjer fært og hún telur forsvaranlegt. Samanburður á þessu máli og því, sem var hjer á döfinni um lán til landbúnaðarins, finst mjer ekki geta átt sjer stað. Það er alt annað að ýta undir bankann í þessu efni en að segja honum blátt áfram að leggja út fje. Jeg býst líka við því, að allir hv. þm. sjeu sammála um, að ekkert sje á móti því, að Landsbankinn taki við sparisjóðnum, heldur sje aðeins um það að ræða, hvað rjett sje að ganga langt, og hvort nokkru eigi að hætta.