01.05.1924
Efri deild: 59. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 81 í D-deild Alþingistíðinda. (2948)

124. mál, sparisjóður Árnessýslu

Sigurður Eggerz:

Við 1. umr. skýrði jeg aðstöðu mína nokkuð til þessa máls. Jeg vil enn taka fram, að þótt jeg gangi inn á till. eins og hún liggur fyrir, er það ekki með glöðu geði. Ástæður til þessa eru meðal annars þær, að engin vissa er fyrir, þótt tillagan verði samþykt, að lausn sje komin á málið. Fjhn. bað stjórnina um skýrslu um það, hvort Landsbankinn mundi ganga að tillögunni, en stjórnin gat ekki svarað, fjekk ekki ákveðið svar frá bankanum, eins og sakir stóðu.

Þegar þetta mál var fyrst á döfinni, mætti jeg á fundi á Eyrarbakka. Þar sem það var til umræðu. Benti jeg þá á ýmsar leiðir út úr málinu, meðal annars á þá, að sparisjóðsinneigendur gæfu eftir 15% af innstæðum sínum, er þeir fengju endurgreiddar síðar meir, ef sjóðurinn ynni sig upp. Gegn þessari eftirgjöf vildi jeg leggja til við þingið, að það tæki á sig ábyrgðina fyrir takmarkaðri upphæð næst á eftir þessum 15%. Með þessu fyrirkomulagi mundi sjóðurinn undir góðri stjórn hafa getað komið fótum undir sig, en landssjóður engu tapað. Næstum allir á Eyrarbakka virtust fallast á þetta í byrjun, eins og jeg hefi minst á áður, en nú sýnast þeir hallast að þeirri leið, sem er bent til í þáltill. Auðsjeð er þó, að þegar sjóðurinn á að gerast upp (likviderast), þá má fremur búast við tapi, og því örðugra fyrir ríkissjóð að ábyrgjast, er sú leið er farin, enda. mun nú ekki lengur von á ríkissjóðsábyrgð.

Til stuðnings því, sem jeg sagði um rekstur sjóðsins, vil jeg geta þess, að atvikin hafa snúist þannig á Eyrarbakka nú, að fiskafli er þar ágætur, fiskverð er og gott nú sem stendur. Kunnugur maður hefir sagt mjer, að líkur væru til, að 75 þúsund kr., sem taldar voru tapaðar í mótorbátum, mundu nú nást inn að mestu. Sje þetta rjett, þá sýnir það, að matið á sjóðnum hefir verið mjög gætilegt. Og þetta bendir á, að sjóðurinn mundi hafa getað haldið áfram, ef leið sú, sem jeg benti á í byrjun, hefði verið farin. En undir öllum kringumstæðum ættu þessar betri horfur að gera það kleift fyrir Landsbankann að ganga að 80%, og vildi jeg mælast til þess, eins og málinu nú er komið, að Landsbankinn sæi sjer fært að verða við þessari ósk.

Jeg hefi fundið ástæðu til að leggja áherslu á þetta, af því að mjer virtist hv. 5. landsk. (JJ) fremur telja tormerki á því, að Landsbankinn gengi að 80%.