01.05.1924
Efri deild: 59. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 82 í D-deild Alþingistíðinda. (2950)

124. mál, sparisjóður Árnessýslu

Jóhann Jósefsson:

Hv. 5. landsk. (JJ) hefir lýst nokkuð aðstöðu okkar í nefndinni. Þótt við sæjum ekki ástæðu til að gera klofning og koma með sjerstakt nál., þótti okkur rjett að láta sjerstöðu okkar koma fram undir umræðum. Tel jeg enga ástæðu til að endurtaka það, sem hv. 5. landsk. (JJ) sagði. En það virtist koma fram hjá hv. 1. landsk. (SE) ótti við það, að við vildum rýra þau kjör, sem sparisjóðurinn annars hefði getað fengið hjá Landsbankanum. Það er alls ekki tilgangurinn; við viljum, að hann komist að sem bestum kjörum. En við vildum ekki láta samningana stranda á því, þó að Landsbankinn gæti ekki ábyrgst nema 70%. Þótt svo færi, að bankinn gæti eða vildi ekki ábyrgjast meira, álitum við ekki hættu vera á ferðum fyrir sparisjóðinn eða eigendur innstæðufjárins, þar eð Landsbankinn mundi fá inneigendum það fje, sem þeim rjettilega bæri. Þess vegna er þetta á engan veg til að rýra sparisjóðinn, heldur til að tryggja það, að málinu yrði komið í sem bestar hendur, þrátt fyrir það, þótt bankinn gæti ekki ábyrgst þær fylstu kröfur, sem farið er fram á.