01.05.1924
Neðri deild: 60. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 85 í D-deild Alþingistíðinda. (2956)

136. mál, skattur af heiðursmerkjum

Forsætisráðherra (JM):

Jeg get lofað því, að þetta mál skuli verða athugað, ef tillagan verður samþykt. Jeg veit eiginlega ekki, hvers vegna hv. frsm. (TrÞ) er hræddur um, að menn muni telja þetta óeðlilegt. Eins og hann tók fram sjálfur, er þetta til í öðrum löndum, svo að hjer er ekki farið fram á neitt nýstárlegt. Aftur gæti verið vafamál, hvort rjett sje að leggja skatt á þá menn, sem hafa þegar verið sæmdir heiðursmerkjum, en jeg skal ekki fara út í það að sinni. Annars mun það víst hvergi tíðkast, að skattur sje greiddur af lægstu stigum heiðursmerkja.

Hv. frsm. (TrÞ) kvað mikið hafa verið haft á móti orðunni og mörgum líkað illa, að hún var stofnuð. Jeg hygg nú, að þessi óánægja hafi komið mest fram í einu blaði, sem hv. frsm. þekkir vel, en hvort það er almenn skoðun, skal jeg láta ósagt um. Þegar þetta ráð var tekið í upphafi, voru aðeins 2 þm. á móti stofnun Fálkaorðunnar, en aðrir 2 greiddu ekki atkvæði. Þetta var að vísu gert á lokuðum fundi, en svona var það. Þeir, sem í móti voru orðunni, eiga báðir ennþá sæti á þingi.

En það skiftir ekki máli um þessa tillögu. Jeg get endurtekið það, sem jeg sagði í upphafi, að málið mun verða athugað.