01.05.1924
Neðri deild: 60. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 89 í D-deild Alþingistíðinda. (2961)

136. mál, skattur af heiðursmerkjum

Forsætisráðherra (JM):

Jeg vil leyfa mjer að benda á, að mjer virðist þetta engin brtt., heldur ný og sjálfstæð tillaga, en auðvitað liggur það undir úrskurði hæstv. forseta (BSv), hvort hún megi komast að. Tillagan er alveg ný og kemur alls ekki þessu máli við, um skatt af heiðursmerkjum. Að sæma útlendinga eina fálkaorðunni kom aldrei til orða, og jeg efast um, að það gæti komið til greina. Um þetta hefir verið rætt með öðrum þjóðum, en það hefir reynst ógerningur að koma því á. En á fundinum, þegar þetta var samþykt, var gert ráð fyrir því, að orðan yrði lítið notuð handa innlendum mönnum, heldur yrði hún aðallega veitt útlendingum. Jeg hygg því, að ekki sje rjett að samþykkja þessa brtt., og þó sjerstaklega vegna þess, að hún hefði átt að koma fram fyr, svo að hv. deild gæti íhugað hana.