01.05.1924
Neðri deild: 60. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 91 í D-deild Alþingistíðinda. (2967)

136. mál, skattur af heiðursmerkjum

Ásgeir Ásgeirsson:

Það er að vísu rjett hjá hæstv. forsrh. (JM), að brtt. mín er býsna ólík upphaflegu tillögunni, en tilgangurinn er þó hinn sami. Tilgangur hv. fjvn. var að spara landsfje. Spámaðurinn verður ekki minni af minni brtt., en mestur þó, ef brtt. hv. þm. Borgf. (PO) verður samþykt. Allar þessar tillögur geta siglt undir hinu sama merki sparnaðarins, þó að mjer gangi nokkuð meira til.

Hæstv. forsrh. (JM) neitar því, að það hafi verið tilætlunin, að innlendir menn yrðu ekki sæmdir fálkaorðunni. Hann getur auðvitað sagt betur um þetta en jeg. Jeg var ekki viðstaddur þennan fund, en mjer hefir verið sagt af mönnum, sem þar voru, að til þessa hafi verið ætlast, og jeg veit, að landsmenn stóðu undrandi, þegar krossunum byrjaði að rigna yfir innlenda menn.

Það má leggja út á mismunandi vegu, hvort rjett sje að veita útlendingum það, sem innlendum mönnum er ekki veitt. Sá er siður víða á bæjum, að gestum er veitt það, sem heimamenn fá ekki, og svo mætti leggja út krossa og titla, sem veittir væru erlendum mönnum, en ekki innlendum. Íslendingar hafa verið svo gestrisnir, að þetta ætti ekki að vera fjarri þeim. Vilji útlendingar ekki taka við íslenskum heiðursmerkjum af þeirri ástæðu, að innlendum mönnum sje það meinað, er einskis í mist, og þó að vjer týnum einhverjum slíkum vinum, eru þeir ekki þess virði, að betra sje að eiga þá.