01.05.1924
Neðri deild: 60. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 92 í D-deild Alþingistíðinda. (2969)

136. mál, skattur af heiðursmerkjum

Frsm. (Tryggvi Þórhallsson):

Örfá orð. Jeg vil undirstrika það, að jeg hefi ekki sem frsm. leitt út í þennan glundroða. Nefndin lítur fyrst og fremst á þetta sem fjárhagsmál, að kostnaðurinn af orðunni náist upp.

Þá vildi jeg mæla örfá orð til vinar míns, hv. þm. Barð. (HK), eins og við erum vanir að ávarpa hvor annan. Mjer virtist hann í þessu efni leggja miður viturlega til málanna en hann er vanur. Hann taldi þetta lítilsvert mál. En það er sem hvað annað frá fjvn., að hún reynir í smáu sem stóru að lækka gjöldin og auka tekjur ríkissjóðs. Hún sá þarna leið til að láta þessa iðju, ef svo mætti kalla, borga sig sjálfa. Hugði jeg, að það mundi að skapi hv. þm. Barð. (HK). Enn meir furðar mig, að hv. þm. skyldi vilja vísa þessu máli til stjórnarinnar. Það er einmitt þetta, sem nefndin leggur til, að skorað sje á stjórnina að undirbúa löggjöf um þetta efni.