30.04.1924
Neðri deild: 59. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1030 í B-deild Alþingistíðinda. (298)

1. mál, fjárlög 1925

Pjétur Þórðarson:

Jeg skal fara fljótt yfir sögu. Jeg vil láta í ljós viðurkenning mína á starfsemi hv. fjvn. fyrir stefnufestu hennar í fjármálum, og því fremur er jeg fús til að gera þetta, sem jeg mun standa með henni í flestu, ef hún kveinkar sjer ekki undan hinum þunga áfellisdómi hv. þm. Dala. (BJ). Þó ber nokkuð á milli mín og nefndarinnar, sjerstaklega þær brtt., sem hún hefir borið fram viðvíkjandi því, sem hv. Ed. hefir breytt í fjárlagafrv.

Annars skal jeg taka það fram, að jeg get farið mjer hægt, ef hv. þm. kjósa heldur að hafa aðrar umr. jafnframt eða vera fjarverandi. Það, sem helst ber á milli mín og hv. fjvn., er það, að mjer finst hún ekki hafa verið fyllilega samkvæm sjálfri sjer, þar sem hún hefir ekki tekið með töluvert háa upphæð, sem háttv. Ed. setti inn í fjárlagafrv. Mjer finst, að það hefði verið fyllilega í samræmi við stefnu nefndarinnar, að hún hefði lækkað þennan lið að nokkru eða lagt til, að hann fjelli niður. Á jeg hjer við 16. lið 16. gr., um styrk til erindrekstrar í Miðjarðarhafslöndunum.

Jeg get ekki sagt, að mjer og hv. fjvn. beri mikið á milli að öðru leyti, og jeg er, eins og jeg hefi þegar tekið fram, fús til að fylgja henni á hinni þröngu sparnaðaðarleið, því jeg lít svo á, að sparnaðurinn verði að fara þröngan veg hjer á hinu háa Alþingi, og mun jeg þó feta hann með nefndinni, þó jeg verði að játa, að jeg hika við að fylgja henni, ef hún fer svo ógætilega um þessa þröngu leið, að hún kynoki sjer ekki við að stíga ofan á farlama gamalmenni og óvita börn, sem fyrir henni kynnu að verða. Með þessu á jeg við það, að mjer þykir hv. fjvn. nokkuð nærfærin um að skilja ekkert eftir af því, sem hv. Ed. setti inn, ein og t. d. 38. lið 16. gr.

Jeg verð líka að segja það, að mjer finst nefndin ekki hafa tekið neitt tillit til þess, með hve miklu atkvæðamagni einstakir liðir hafa verið samþyktir í hv. Ed. Mjer finst þetta varhugavert, þegar auðsjeð er, að ýmislegt hlýtur að verða komið undir samkomulagi beggja hv. deilda að síðustu, og því virðist sem taka verði tillit til, með hve miklu atkvæðamagni hver fjárveiting er samþykt í hvorri deild.

Jeg ætla ekki að fara mörgum orðum um þessa styrkveitingu til Hítardalshjónanna. En jeg efast um það enn, að öll hv. fjvn. sje óskift með því að fella þennan lið niður, og það sama er að segja um hv. deild. Jeg vænti þess, að hv. þdm. sýni, að vel má veita þennan styrk án þess að þingið komist í nokkra klípu, og felli því till. hv. fjvn.

Jeg mun ekki fara í neinn samjöfnuð eða vekja upp deilur um einstaka liði, sem nú eru orðnir fastir í fjárlögunum, en ef vel er aðgætt, þá hygg jeg, að þar sje ýmislegt, sem í raun og veru hefir ekki meira siðferðilegt gildi til að standa þar ár eftir ár heldur en þessi styrkur að standa þar í eitt skifti. Það eru svo margar fjárveitingar, sem þegar eru viðurkendar, en hafa ekkert lagagildi, heldur standa ár frá ári vegna siðferðilegs og rjettlætisgildis, sakir sanngirninnar í því að láta þær standa. En jeg verð að segja það, að það, sem hv. Ed. samþykti með 12:2 atkv. að veita í þessu efni, megi skoða sem vitnisburð um rjettlætis- og siðferðistilfinning þeirrar hv. deildar, og muni svo fara, að hv. þm. hjer muni láta atkvæði sín falla í sömu átt.

Jeg skal svo ekki segja meira um þetta.

Af till. einstakra hv. þm. vil jeg aðeins leyfa mjer að minnast á tvær.

Sú fyrri er á þskj. 460 og er frá hv. þm. Dala. (BJ), um styrk til að reisa sjúkraskýli og læknisbústað í Flatey á Breiðafirði. Þrátt fyrir sparnaðartal og sparnaðarhug hv. fjvn. Ed. og Nd. get jeg ekki vel áttað mig á því, hvernig þær sjá sjer ekki fært að leggja meira fje til þessara stofnana heldur en gert hefir verið. Jeg get ekki áttað mig á því, þar sem fyrir liggja umsóknir frá 4 hjeruðum í þessu skyni og það er viðurkent, að ríkissjóði ber að leggja fje til þessa. Því það er viðurkent fyrir löngu og verður ekki hægt að kippa að sjer hendinni um fjárframlög í þessu efni, heldur verður að halda þeim áfram í stærri eða smærri stíl.

Jeg hygg nú, að það sje sanngjarnt og ekki erfitt að verða við 2 þessum umsóknum að fullu eða mestu leyti, og að það, sem þarf í þessu efni, myndi vinnast, ef tvær slíkar fjárveitingar yrðu veittar á ári. Mjer finst þessi till. hv. þm. Dala. hafa svo mikinn rjett á sjer, að ekki sje laust við, að það særði rjettlætistilfinning manna, ef hún næði ekki samþykki hv. deildar. Jeg veit að vísu, að erfitt er að gera upp á milli hjeraðanna, og jeg er ekki fær um að gera það, en mjer finst það fremur lítill útgjaldaauki, þó að 2 hjeruðum væri sint í þessu efni. Vil jeg því leyfa mjer að mæla með þessari till við þá menn ekki síst, sem hafa líka rjettlætismeðvitund og jeg.

Loks skal jeg aðeins leyfa mjer að minnast á fyrri till. á þskj. 467, frá hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ). Jeg ætla aðeins að láta það í ljós, að jeg hefði ekki misvirt það, þó að hann og aðrir hefðu fylgt hv. fjvn. í því að skera niður styrkveitinguna til Hítardalshjónanna. En þessi aðferð til að koma þessari fjárveiting út af fjárlagafrv. finst mjer ekki hæfa eða samsvara þeirri göfugmannlegu aðferð við að leggja með eða móti einhverju máli, sem jeg hefði búist við, að sá hv. þm. (SvÓ) myndi beita. Og jeg verð að segja það, að þó þessi till. komi fyr til atkvæða en till. hv. fjvn. um að fella styrkinn niður, get jeg ekki greitt henni atkvæði. Jeg myndi undir engum kringumstæðum hafa farið eins að, og jeg get ekki litið svo á, að slík till. sje fyllilega samboðin þeirri meðvitund, sem ætti að ráða, þegar menn leggja eitthvað til í fjárveitingum. Á jeg við, að ef einhver flytti fjárveitingartill. og mjer virtist jeg hafa jafnan rjett til að flytja aðra eins, þá myndi mjer ekki detta í hug að flytja hana, ef jeg væri andvígur því, að hin till., sem ætti jafnan rjett á sjer, væri flutt af öðrum.

Jeg verð því að lýsa því yfir, að þótt þessi till. verði borin fram á undan till. hv. fjvn. um að fella niður styrk til hjónanna í Hítardal, þá mun jeg greiða atkv. móti þessari till. samt sem áður.