01.05.1924
Efri deild: 59. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 101 í D-deild Alþingistíðinda. (2982)

143. mál, Landspítalamálið

Fjármálaráðherra (JÞ):

Hæstv. forsætisráðherra (JM) er bundinn við umr. í hv. Nd. og getur því ekki verið hjer viðstaddur, en við höfum borið okkur saman um þessa till., og get jeg því sagt fyrir hönd stjórnarinnar, að hún mun verða við tilmælum þeim, sem felast í 1. lið till., á þann hátt að láta gera nýja uppdrætti af landsspítala, minni en áður.

Um 2. lið till. getur stjórnin engu lofað, meðal annars vegna þess, að fyrst verður það að koma í ljós, hvort tiltækilegt þætti að nota í því skyni uppdrætti þá, sem gerðir verða samkv. 1. lið till. Auk þess mun, samkv. loforði fyrverandi hæstv. stjórnar, lúkning Kleppsspítalans verða látin ganga fyrir öðrum byggingum; en fjárhagur ríkissjóðs er nú þannig, að engin tiltök munu vera á því, að byrjað verði á því verki nú á þessu ári, en vonandi rætist úr því síðar.

Virðist því vera nægur tími að bera fram á næsta þingi það, sem felst í 2. lið till., eftir að til fulls hefir verið unnið að hinu, sem í 1. liðnum felst.

Að sjálfsögðu mun reynt að leita samninga við Reykjavíkurbæ, samkv. 3. lið till., þegar sá grundvöllur er fenginn, að unt verði að leita þeirra. En eins og kunnugt er, mun það verða eitt hið fyrsta, sem bærinn lætur framkvæma, þegar úr fjárhag hans rætist, að láta rannsaka til fulls, á hvern hátt megi best nota hið heita vatn lauganna hjer fyrir innan bæinn.