15.02.1924
Sameinað þing: 1. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 8 í B-deild Alþingistíðinda. (3)

Minning látinna manna

Aldursforseti (SJ):

Áður en gengið er til þingstarfa, vil jeg leyfa mjer að minnast þriggja manna, er látist hafa síðan síðasta þingi sleit og allir hafa verið alþingismenn.

Fyrstan vil jeg telja Hermann Jónasson. Hann var fæddur 22. okt. 1858 á Víðikeri í Bárðardal. Frá búnaðarskólanum á Hólum útskrifaðist hann 1884 og nam síðan búfræði í Danmörku. Hann var skólastjóri alþýðuskólans í Hljeskógum 1887–1888 og búnaðarskólans á Hólum í Hjaltadal 1888–1896. Eftir það bjó hann á Þingeyrum, 1896–1905. Hinn 1. apríl það ár var hann skipaður ráðsmaður holdsveikraspítalans í Laugarnesi og gegndi því starfi til vorsins 1910. 20. apríl 1904 var hann skipaður í milliþinganefnd í búnaðarmálum. Hann var kosinn á þing af Húnvetningum árið 1901 og var 1. þm. þeirra til 1907. Átti hann því sæti á 5 þingum. Hann andaðist hjer í Reykjavík 6. des. 1923.

Annar þessara manna er Sigurður Jensson, præp. hon. Hann var fæddur hjer í Reykjavík 15. júní 1853, útskrifaðist úr latínuskólanum vorið 1873 og af prestaskólanum 1876. Hinn 20. ágúst 1880 var honum veitt Flatey á Breiðafirði, og þjónaði hann því prestakalli til 1922, er hans fjekk lausn frá embætti, eða samfleytt í 42 ár. Prófastur í Barðastrandarsýslu varð hann 1883 og gegndi því starfi til 1902.

Hann var kosinn á þing af Barðstrendingum árið 1886 og var fulltrúi þeirra til 1907; sat því á 14 þingum. Hann andaðist í Reykjavík 5. jan. þ. á.

Loks vil jeg minnast á dr. Jón Þorkelsson, yfirþjóðskjalavörð. Hann var fæddur að Ásum í Skaftártungu 16. apríl 1859. Árið 1882 útskrifaðist hann úr latínuskólanum og sigldi samsumars til Kaupmannahafnar. Las hann við háskólann þar norræna málfræði og bókmentasögu og tók meistarapróf í þeim fræðum sumarið 1886, en 2 árum síðar varð hann doktor fyrir ritgerð um íslenskan kveðskap á 15. og 16. öld, er hann varði við háskólann 30. júní 1888. Dvaldi hann svo í Kaupmannahöfn til 1898, eða samfleytt í 16 ár (1882–1898), en flutti þá um sumarið til Reykjavíkur.

Haustið 1899 varð hann skjalavörður við Landsskjalasafnið í Reykjavík, en er fyrirkomulagi safnsins var breytt 1915, var hann skipaður yfirskjalavörður við Þjóðskjalasafn Íslands, og gegndi hann því starfi til dánardags.

Forseti Þjóðvinafjelagsins var hann 1911–1913 og forseti Bókmentafjelagsins var hann kjörinn 1918 og var hann það til dauðadags.

Hann var fyrst kosinn á þing af Snæfellingum árið 1893. 1. þm. Reykv. var hann frá 1909–1911. Hinn 15. júní 1915 var hann kvaddur til þingsetu sem konungkjörinn alþingismaður og sat á þingi það sumar. Átti hann þannig sæti á 4 þingum. Skrifstofustjóri Alþingis var hann á þingunum 1894, 1901, 1902, 1903 og 1905, eða samtals á 5 þingum.

Hann andaðist hjer í Reykjavík 10. þ. m.

Þingheimur vottaði virðing minningu þessara manna með því að standa upp.