02.05.1924
Neðri deild: 61. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 126 í D-deild Alþingistíðinda. (3009)

135. mál, rýmkun landhelginnar

Jakob Möller:

Jeg vil geta þess þótt ekki komi það þessu máli beinlínis við, að það er alls ekki rjett hjá hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ), að það þekkist hjá öðrum þjóðum að leggja aðrar refsingar við sama broti á innlenda menn og útlenda. Hitt er alls annars eðlis, að banna innlendum mönnum það, sem ekki er hægt að banna útlendingum. Jeg vona, að hv. þm. (ÁÁ) sjái við nánari athugun, að á þessu er mjög mikill eðlismunur. Ef frv. það, sem hann á við, hefði aðeins farið fram á það að banna innlendum togurum að stunda veiðar innan fjarða yfirleitt, án tillits til takmarka landhelginnar, en refsiákvæðin látin vera þau sömu, þá er ekki víst, að undirtektirnar yrðu eins slæmar. (PO: það kemur á næsta þingi!) Jeg hefi annars ekkert um till. að segja nema það besta. Það fer vitanlega sem auðna vill um árangurinn. En sjálf gefur till. enga ástæðu til þess að veifa hjer neinni hreppapólitík.