10.04.1924
Neðri deild: 47. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 128 í D-deild Alþingistíðinda. (3016)

128. mál, yfirskoðunarmenn landsreikningsins

Frsm. (Jörundur Brynjólfsson):

Jeg sje ekki ástæðu til þess að halda langa tölu til að skýra þetta mál fyrir háttv. deild, en verð að láta mjer nægja stutta skírskotun til greinargerðarinnar fyrir þessari till. og til landsreikningsins, og geti hv. þdm. stafað sig fram úr þessum plöggum, vænti jeg, að þeir sjái þær ástæður, sem eru til þess, að þessi till. er kominn fram.

Þessar eftirstöðvar hafa staðið árum saman í landsreikningnum, og ætti því að vera kominn tími til að ganga úr skugga um það, hvað af þeim er fáanlegt og hvað ekki. Ætti stjórnin að gera gangskör að því að ná því inn af þessum eftirstöðvum, sem hægt er að fá greitt, en fjhn. telur eigi rjett að vera lengur að bókfæra þær eftirstöðvar, sem ekki eru fáanlegar. En í sambandi við þetta vil jeg bæta hjer við þeirri athugasemd frá mjer sjálfum persónulega, en ekki frá nefndinni, að stjórnin ætti einnig að gera gangskör að því að fá upplýst, hversu mikið er enn þá í vörslum sýslumanna og máske annara af baðlyfjum, sem eru eign ríkissjóðs, og ef það er svo mikið, að nokkru nemi, ætti að reyna að koma því í verð. En þurfi að láta geyma þessi lyf lengi, þarf að sjá um, að þau sjeu þannig geymd, að þau skemmist ekki. Jeg vænti því, þó að þetta komi ekki beint því við, sem hjer er til umræðu, að stjórnin taki þetta til íhugunar.