10.04.1924
Neðri deild: 47. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 131 í D-deild Alþingistíðinda. (3020)

128. mál, yfirskoðunarmenn landsreikningsins

Hákon Kristófersson:

Það eru aðeins örfá orð í þetta sinn. Það er alveg rjett hjá hv. 2. þm. Árn. (JörB), að það er dálítið af baðlyfjum geymt úti um land. Það er t. d. talsvert til af þeim í Barðastrandarsýslu, að jeg held, en jeg býst við, að það sje samt allmikið skemt. Magnús Einarsson dýralæknir hefir tjáð mjer, að baðlyfið væri alls ekki nothæft, ef það frysi, en jeg býst ekki við, að stjórnin geti ætlast til þess af sýslumönnum, að þeir sjái alstaðar um geymslu lyfjanna, svo að ekki kunni þau að frjósa. Baðlyfin eru víðast hvar geymd í kjöllurum, en þeir eru víða svo kaldir, að frosið getur í þeim; auk þess eru umbúðir lyfjanna, dunkarnir, mjög svo ljelegir, og geymist þetta því illa þess vegna. Hitt leikur á tveim tungum, hversu mikið verðmæti sje fólgið í því baðlyfi, er mun vera í geymslu úti um land. Jeg hygg, að meiri hlutinn af þessu sje þegar ónýtur, og ekki heldur víst, hve mikið er til af þessum lyfjum, en jeg tel það fráleitt að ætla sjer að byggja útrýmingar- eða þrifabaðanir á þessum lyfjum, nema það sje áður rannsakað, hversu þau muni duga til þess að böðin verði fullkomlega trygg. En að því álít jeg að eigi að stefna með þrifaböðuninni að losa ríkissjóð við það að þurfa að láta útrýmingarböðun fara fram. Jeg býst því ekki við, að stjórninni verði mikið fje úr þessum lyfjum, enda var það talið, að mikið væri skemt af þeim þegar í apphafi, er þau voru keypt. Ef það hefir verið rjett, má nærri geta, hvernig þau eru nú. Jeg finn því ástæðu til að skjóta því til hæstv. stjórnar, að hún láti alls ekki selja til þrifaböðunar þau baðlyf, sem eru þegar orðin skemd og því ónothæf.