16.04.1924
Neðri deild: 52. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 142 í D-deild Alþingistíðinda. (3047)

125. mál, hressingarhæli fyrir berklaveika

Pjetur Þórðarson:

Jeg sje mjer ekki fært að greiða atkv. með þessari till., vegna þess, að það er hjer ekkert tillit tekið til þess, að hælið geti verið í nánd við jarðhita. Að þetta hæli verði rekið sem starfsemi út af fyrir sig, og muni aldrei koma til að standa í sambandi við ríkisstarfsemi sömu tegundar tel jeg ekki hafa neitt gildi til meðmæla. Það hefði verið öðru máli að gegna, ef hjer hefði átt að leggja vísi til einhvers, sem hægt hefði verið að byggja á framhald síðar. Það er ekki ástæðulaust að minnast á hverahitann í sambandi við þetta. T. d. hefði mátt spara mikið fje, ef Vífilsstaðahælið hefði verið sett þar, sem jarðhiti hefði nægur verið. Þá hefði mátt vera búið að spara firnin öll af kolum, sjálfsagt svo, að tugum þúsunda skiftir, og þó öllu heldur hundruðum þúsunda. Að vísu er jeg ekki svo kunnugur hjer í grendinni, að jeg geti bent á nokkurn slíkan stað, en svo mikið veit jeg þó um staðhætti hjer, að jeg er þess fullviss, að það hefði mátt setja slíkt hæli í samband við jarðhita. Slík tilraun, sem hjer er um að ræða, á fulla samúð skilið, en því aðeins þó, að hún geti orðið vísir til einhvers framhalds síðar. Annars tel jeg þetta ekki svara tilganginum, ef hæli á að setja á þessum stað. Það er þetta, sem mjer þykir hjer á vanta, og því er mjer ekki ljúft að greiða atkv. með till.