26.04.1924
Efri deild: 55. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 152 í D-deild Alþingistíðinda. (3055)

125. mál, hressingarhæli fyrir berklaveika

Ingibjörg H. Bjarnason:

Jeg stend ekki upp til þess að fara að kappræða, heldur til að undirstrika það, sem hv. 1. landsk. (SE) sagði, og um leið víkja dálítið að aths. hv. 5. landsk. (JJ), að því leyti sem þær snerta framtíðarstarfsemi hressingarhæla hjer á landi. Fyrir kvenfjelaginu „Hringnum“ vakir ekkert annað en það að nota þá sömu krafta, sem hafa verið að verki frá því 1906, og gefa þeim nýtt starfssvið. Ásetningur fjelagsins er algerlega undirhyggjulaus; hann er sá, að starfa með eigin kröftum og eigin fje. Þessar konur hugsa sjer hælið eiginlega sem stórt heimili.

Að staðurinn sje óheppilegur, get jeg ekki sjeð, þegar af þeirri ástæðu, sem jeg tók fram, hversu mikið skilyrði það er, að hælið sje nálægt Reykjavík, svo að fjelagið geti sjálft unnið betur að þessu verki. Því miður eigum við ekki neinn skógi vaxinn, gróðursælan stað hjer í nánd; slíkur staður væri á alla lund miklu ákjósanlegri heldur en Kópavogur. En jeg geng út frá því, að fjelagið hafi rannsakað þetta mál svo vel, að jeg treysti mjer ekki til á þessu stigi málsins að leggja neitt annað til en að biðja hv. deildarnenn að leggja máli þessu lið sitt.