02.05.1924
Neðri deild: 61. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 164 í D-deild Alþingistíðinda. (3069)

142. mál, framhaldsnám í gagnfræðaskólanum á Akureyri

Bjarni Jónsson:

Það er ef til vill að bera í bakkafullan lækinn, en jeg hugði, að jeg mundi verða einn um að mótmæla stofnun sjerstaks lærðs skóla eða mentaskóla á Akureyri.

Það er óþarft að tína það til, sem aðrir hafa sagt um þörfina á því að leita til þingsins um þetta. Hv. þm. Ak. (BL) og hæstv. forsrh. (JM) sögðu alveg rjett um það, og sömuleiðis tel jeg rjett ummæli hv. þm. Ísaf. (SigurjJ) um tímakensluna. Hana á auðvitað að leggja niður, áður en öðrum kenslukröftum er ráðstafað á nýja lund.

Jeg þykist sjá af öllu þessu, hvernig tillagan er orðuð og fyrir henni mælt, til hvers refarnir eru skornir. Það er farið fram á að stofna lærðan skóla á Akureyri. Ekki beint. Það þótti ekki sigurvænlegt. Það var gengið beint að verki á þinginu í fyrra. Flutningsmaður málsins bar fram frv. og fylgdi því fast fram. En hann hafði annað meðal til þess að hlunnfara deildina: að ekki þyrfti að bæta við nema einum kennara þó að nýrri lærdómsdeild með 3 bekkjum væri við aukið. Þá urðu margir til að sýna fram á, að þetta væri ekki rjett, heldur yrði að bæta við rúmlega 4 kennurum, svo að skólinn gæti annast þá kenslu, sem honum væri ætlað. En hjer er alt talað óljóst og í ráðgátum. það er sagt, ef bekkjum skólans verður ekki tvískift. Í því felst sú röksemd, sem áður hefir verið fram borin, að piltar verða gerðir afturreka, ef of margir sækja um inntöku í gagnfræðadeildina til þess að bekkir geti verið óskiftir, svo að kenslukraftar verði afgangs. Nú er það sýnt, að þessu á að beita, að reka aftur helming þeirra ungu manna, sem vilja öðlast gagnfræðamentun. Tilætlunin er bersýnilega hin sama sem fyr, þótt orðað sje á annan hátt. Í orðunum: ef bekkjunum verður ekki tvískift, hlýtur að liggja þetta, því að engin von er til þess, að aðsókn fari minkandi. Jeg vildi verða síðastur manna til að leggja stein í götu fátækra nemenda og efnilegra, að þeir kæmust leiðar sinnar, einkum þar sem kennarar skólans virðast vilja veita þeim ókeypis kenslu. Aftur hygg jeg, að tæplega muni til þess koma, að kenslumálastjórnin synji um að lána skólahúsið til þessara gjafkenslustunda, og þó að hún reyndist svo illvíg, að hún vildi ekki leyfa þetta, munu kennararnir tæplega búa svo þröngt, að þeir geti ekki sagt nokkrum mönnum til heima hjá sjer. Hitt hefi jeg aldrei heyrt, að menn hafi farið til þingsins og sótt um leyfi til að mega kenna fyrir ekki neitt. Kennarar eiga sjálfir ráð á tómstundum sínum. Hæstv. kenslumálaráðherra (JM) kvað samkomulag mundu geta orðið um afnot af skólahúsinu, og trúi jeg því fyllilega, en þó að synjað verði um það, mun húsrúm ekki skorta, svo sem jeg gat um.

Af hverju er þá verið að fara með þetta til þingsins? Af því að menn vita, að sje ákveðnum herra rjettur litli fingurinn, líður ekki á löngu áður en hann nær í alla höndina. Ef þingið fer að skifta sjer af þessu, verður að byggja á því, að það hafi leyft eitthvað, sem leyfi þess þurfti að koma til, en það er að stofna nýjan lærðan skóla, bæta lærdómsdeild ofan á gagnfræðaskólann á Akureyri. Fjölga embættum gersamlega að óþörfu. Það væri broslegt, ef þetta þing, sem hefir eytt mestum tíma sínum í að reyna að slátra oss, ríkisþrælum, gæfi tilefni til að fjölga embættum að óþörfu, búa til 4–5 ný embætti, svo sem jeg sýndi fram á í fyrra, þegar frv. um þetta efni var á ferðinni.

Annars er einkennilegt með þingið og gagnfræðaskólana. það er undarleg fyrirmunun á þeim mönnum, sem þykjast vilja spara alt, sem tiltækilegt er, að þeir vilja hafa 3 gagnfræðaskóla á kostnað ríkissjóðs, Flensborgarskóla, Akureyrarskóla og gagnfræðadeild mentaskólans. En svo eru jafnmargir gagnfræðaskólar eða fleiri, sem aumingja sýslurnar og hjeruðin verða að standa allan straum af, en fá aðeins lítilfjörlegan styrk til. Það er undarlegt jafnrjetti, að sumstaðar greiðir ríkissjóður allan kostnað, en aðra skóla kosta hjeruðin sjálf, með lítilfjörlegum styrk, sem mun nema samtals um 30000 kr. Þau hjeruð kosta því sjálf gagnfræðamentun sína með lítilfjörlegum námsstyrk úr ríkissjóði. En hina 3 skólana er sjálfsagt að kosta. Þá er nóg fje og ekki um það að ræða að stöðva aðsókn að þeim. Þegar menn þykjast vilja spara, er því vendilega gleymt, að þessa skóla má afnema alla og segja hjeruðunum að annast sjálf gagnfræðamentun sína með samskonar styrk sem hinir skólarnir fá nú. það er jafnrjetti og stórsparnaður fyrir ríkissjóð. Þetta hefi jeg margsinnis bent á hjer á Alþingi. Jeg er ekki viss um, nema jeg hefði reynt að koma þessu til leiðar, hefði jeg ekki verið svo lengi veikur. Jeg flutti, svo sem kunnugt er, frv. um lærðan skóla, og í sambandi við það mál ætlaði jeg að reyna að spara landsfje á þennan hátt í miklu stærri stíl en þingið hefir látið sjer koma til hugar. Þingið hefði þá engum gert rangt til, en skapað jafnrjetti í landinu.

Dixi.