01.05.1924
Neðri deild: 60. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 171 í D-deild Alþingistíðinda. (3080)

140. mál, kæliskápur

Frsm. (Jón Sigurðsson):

Þar sem þetta mál er mjög mikilsvert, vil jeg fara um það nokkrum orðum.

Eitt af þeim málum, sem mestu skiftir fyrir alla framleiðendur og jafnframt fyrir þjóðarhaginn, er sala afurðanna. Þetta hefir bæði þjóð og þing viðurkent með því að veita á undanförnum árum allríflega fje til þess að leita fyrir um nýja og betri markaði og greiða fyrir sölu afurðanna erlendis. Sem sýnishorn þess, hve mikils virði erlendar þjóðir telja góðan markað, má geta þess, að einn veigamesti þátturinn í utanríkispólitík stórveldanna flestra hefir verið að tryggja sjer markað fyrir afurðir þema sinna. Það hefir líka smátt og smátt orðið úr þessu kapphlaup um vöruvöndun og vörugæði, þar sem hver þjóð hefir kostað kapps um að framleiða þannig vörur, að þær sjeu sem næst óskum þeirra kaupenda, sem hægast eiga með að borga. Íslenskir framleiðendur hafa einnig dregist inn í þetta kapphlaup. Íslenskum útgerðarmönnum og útvegsbændum hefir um alllangt skeið tekist að verka aðalframleiðsluvöruna, fiskinn svo vel, að hann hefir skarað fram úr samskonar vömm annara þjóða. Hafa þeir því fengið gott verð fyrir hann og tiltölulega rúman markað, og halda áfram að færa út kvíarnar.

Landbændurnir hafa aftur á móti orðið seinni til, ekki af því, að þeir hafi ekki fyrir löngu komið auga á nauðsyn þess að afla betri markaða og breyta um meðferð og verkunaraðferðir á vörum sínum, heldur er það af því, að hver einstakur bóndi var svo lítils megnugur, að hann gat engu áorkað á þessu sviði. Það var fyrst, þá er bændur höfðu slegið sjer saman, að eitthvað verulegt var hægt að gera. Kaupfjelögin og sláturfjelögin tóku þá þessi mál á stefnuskrá sína, og hafa þau á ýmsan hátt reynt að auka vöruvöndun og greiða fyrir afurðasölunni, sem jeg mun síðar drepa á. Síðan sauðasalan hætti til Englands, hefir kjötið verið langstærsti liðurinn af seldum afurðum flestra landbænda, og á sama tíma fór verulegur áhugi fyrir bættri saltkjötsverkun að gera vart við sig; sláturfjelög bænda gengu víðast hvar á undan, og aðrir komu svo á eftir. Það er óhætt að segja, að það hefir verið unnið kappsamlega að þessu, enda er nú svo komið, að íslenskt saltkjöt hefir unnið sjer mikið álit erlendis, þar sem það er mest notað. Verðið hefir einnig hækkað allverulega, en þó er enn mikill munur á því verði, er íslenskir bændur fá fyrir kjöt sitt, og bændur í nágrannalöndum okkar. T. d. var verðið á norsku kindakjöti um áramótin 1923 kringum 3 kr. hvert kg., en á íslensku kjöti í Noregi á sama tíma um kr. 1,20–1,30 hvert kg. það, sem einkum veldur því, að við fáum tiltölulega lítið verð fyrir kjötið okkar, þrátt fyrir gæði þess og mikla vöruvöndun, er fyrst og fremst það, að saltkjöt er nú orðið víðast í litlum metum og því einkum keypt af fátækara fólkinu, og í öðru lagi berst mjög mikið árlega til Noregs og fleiri landa af ódýru, söltuðu nautakjöti og fleiri tegundir frá Ameríku og öðrum löndum, þar sem framleiðslukostnaðurinn er margfalt minni en hjá okkur. Og þetta veldur því, að markaðurinn fyrir íslenskt saltkjöt hefir reynst svo þröngur undanfarin ár, að meiri slátrun eitt árið en annað hefir virst valda söluörðugleikum og jafnvel lækkun á kjötverðinu. Bændur líta því alment svo á, að ef ekki tekst að bæta úr þessu á einhvern hátt, þá sje loku skotið fyrir aukna kjötframleiðslu og fjáreign hjer á landi, svo nokkru verulegu nemi. Við þessa örðugleika bætast svo gífurlegar tollálögur Norðmanna, og þótt svo færi, að það tækist að greiða fram úr því máli að sinni, vandræðalaust, þá mega íslenskir bændur búast við þessu vopni Norðmanna yfir höfði sjer, hvenær sem þeim býður svo við að horfa.

Það er því ekki að ástæðulausu, að bændur hafa skygnst um eftir leiðum út úr þessu öngþveiti. Tvær leiðir hafa einkum verið nefndar, þ. e. útflutningur á lifandi fje og útflutningur á kældu og frystu kjöti til Bretlands. Um fyrri leiðina ætla jeg ekki að ræða að þessu sinni, en snúa mjer að því úrræðinu, er jeg taldi síðar.

Það hefir áður verið tekið fram, að skilyrði fyrir því að fá gott verð fyrir einhverja vöru, væri fyrst og fremst það, að hún fullnægði sem best kröfum þeirra, sem hæst verð geta borgað. Nú er það alkunnugt, að nýtt kjöt er eftirsóttari vara en saltað kjöt, og stendur því nær þessu marki. Í öðru lagi stöndum vjer Íslendingar að því leyti betur að vígi gagnvart enska markaðinum en Ástralíubúar og Ameríkumenn, að við getum komið kjötinu nýju á enskan markað, ef vel gengi. Hjer er heldur ekki að ræða um neinar ágiskanir, gripnar úr lausu lofti. Haustið 1922 gerði S. Í. S. lítilsháttar tilraun með sendingu og sölu á kældu dilkakjöti til útlanda, en tilraunin hepnaðist ekki allskostar, vegna ófullnægjandi kælingar og annarar meðferðar.

Þingið 1923 veitti stjórninni heimild til að styðja að áframhaldandi tilraunum S. Í. S. í þessa átt með fjárframlagi, ef halli yrði á þeim, og viðurkendi þar með nauðsyn þessa máls. Síðastliðið haust gerði S. Í. S. aftur tilraun með sendingu á kældu kjöti til Bretlands; þessi tilraun var betur undirbúin og hepnaðist yfirleitt vel. Það, sem unnist hefir við þessar tilraunir, er það fyrst og fremst, að nú er fullsannað, að hægt er að koma íslensku kjöti óskemdu á erlendan markað að kjötið íslenska þykir sjerlega ljúffengt og að hægt er að selja það fyrir mjög gott verð. Talsverður kostnaður varð við þessa tilraunasendingu, en það má telja eðlilegt, þar sem þetta var aðeins tilraun. Þegar þetta mál var rætt á síðasta þingi, var gert ráð fyrir stærri tilraunum. Nielsen framkvæmdastjóri gerði tilraunir til að leigja kæliskip, en á því var ekki kostur, nema þá svo stóru, að ekki væri við okkar hæfi. Fjell svo þetta niður, og við það situr enn. En fjvn. Nd. var það ljóst af þeim ástæðum, sem jeg hefi drepið á, að hjer var um stórmál að ræða fyrir annan aðalatvinnuveg landsins, svo að hún afrjeð að kynna sjer málið og greiða fyrir því eftir bestu getu. Henni var kunnugt um, að Nielsen hafði mikinn áhuga fyrir málinu. Nefndarmenn leituðu til hans og fengu hjá honum margar upplýsingar. Hann hafði látið gera uppdrátt af skipi af líkri stærð og „Goðafoss“. Það var að gerð frábrugðið venjulegum gufuskipum, var sem nokkurskonar fljótandi frystihús. Með því eru menn losaðir við þann erfiðleika, sem sýndist nær ókleifur, sem sje að byggja frystihús hvarvetna á landinu. Skipið er áætlað að taki 700 smálestir af kjöti og verð um 1400 þús. kr. danskar. Ennfremur átti nefndin kost á að kynna sjer uppdrætti, sem Guðbrandur Jónsson hefir útvegað frá Þýskalandi, einnig af kæliskipi. Þar sem nefndin hafði ekki sjerþekkingu í þeim efnum, hefir hún aðeins athugað uppdrættina lauslega.

Eftir að hafa átt tal við báða þessa menn, svo og Guðmund Vilhjálmsson, sem hefir staðið fyrir sölunni á kjötinu í Englandi, þóttist hún sjá af þeim upplýsingum, sem þeir gáfu henni, að þetta stórmál væri þannig vaxið, að ekki væri hyggilegt að hrapa um of að því, þótt nauðsynin væri mikil á því að koma því í kring sem fyrst. Nefndinni var ljóst, að ýmislegt þyrfti mjög að rannsaka um þetta mál. Þetta skip yrði mjög dýrt, og afleiðingin af því er sú, að það þarf að hafa stöðugt nóg að gera. Til að byrja með er ekki hægt að vænta þess, að við getum selt mjög mikið í einu á breskan markað, vegna þess, að það þarf tíma til að vinna kjötinu álit meðal þjóðarinnar. Okkur hefir t. d. verið tjáð það af þeim manni, sem best hefir kynt sjer þessa hluti, að það myndi varla þýða að senda heila skipsfarma í einu, til að byrja með.

Nú er á það að líta, að íslensku skipin, sem fyrir eru, hafa að sögn tæplega nóg að flytja. Að því leyti til sýndist nefndinni ekki blása neitt byrlega fyrir þessari hugmynd, nema ef komið gæti til mála að losa sig við eitt af þessum skipum, t. d. „Villemoes“. Þetta þarf að athuga og rannsaka. Einnig þarf að rannsaka, hvort sjávarútvegurinn gæti haft verulegt gagn af slíku frystiskipi, svo að báðir atvinnuvegirnir, sjávarútvegurinn og landbúnaðurinn, gætu tekið höndum saman. Gæti það orðið til mikilla hagsbóta fyrir báða málsaðilja. Með þetta fyrir augum leggjum við til, að skipun nefndar verði á þann veg, sem í till. stendur. Er vitanlega ástæða fyrir hina fyrirhuguðu nefnd að rannsaka, hvort ekki sje hyggilegra að fá ódýrara skip, og hvort til mála gæti komið að hafa að einhverju leyti annað skipulag en menn hafa hingað til hugsað sjer. Yfirleitt þarf þetta mál ítarlegrar rannsóknar við, sem nefndinni er ætluð. Að sjálfsögðu gerum við ráð fyrir, að sá maður, sem mest hefir kynt sjer þetta mál, Nielsen, verði í ráðum með nefndinni.

Jeg hefi nú í fáum orðum sýnt fram á, hvert nauðsynjamál þetta er fyrir landbúnaðinn. Það er nú svo komið, að þetta er að verða eitt af mestu velferðarmálum hans og þá um leið þjóðfjelagsins. Þegar nefndin hefir lokið störfum sínum — og við vonum, að hún komist að heillavænlegri og heppilegri niðurstöðu — þá þyrftu sem flestir að taka höndum saman um að koma þessu máli áleiðis. Það færi líka vel á því, að óbilgirni Norðmanna í okkar garð yrði til þess að losa okkur að mestu við norska kjötmarkaðinn, og að losa okkur undan þeim áhrifum, sem þeir virðast ætla að fara að hafa á löggjöf okkar. Svo framarlega sem það tekst að vinna kjöti okkar álit á breskum markaði, þá virðast lítil takmörk vera fyrir því, hve mikið Ísland getur framleitt af kjöti. Hjer er um svo mikla sölumöguleika að ræða, að vart er hægt að gera sjer í hugarlund, hve mikil áhrif þetta getur haft fyrir íslenskan landbúnað.

Vona jeg, að hv. deild lofi þessu máli að ganga óhindruðu áfram. Sá kostnaður, sem af þessu kann að leiða, mun að sjálfsögðu verða greiddur úr ríkissjóði Vona jeg, að hæstv. stjórn, og þá einkum hæstv. atvrh. (MG), geri sitt til að greiða fyrir málinu.