04.04.1924
Sameinað þing: 3. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 212 í D-deild Alþingistíðinda. (3117)

41. mál, takmörkun nemenda í lærdómsdeild

Magnús Jónsson:

Jeg hafði hugsað mjer að gera nokkrar athugasemdir við þáltill. hv. 5. landsk. (JJ). En hann hefir uppleyst þessa pillu í svo mörgum pottum af — við skulum ekki segja vatni, heldur andríki, — að það liggur við, að mjer ói við að leggja út í það. Þetta er orðið svo stórt mál, eins og það er fram borið, enda held jeg, að pillan sje alveg uppleyst orðin og horfin, sjálft málið gleymt.

Fyrir mitt leyti segi jeg það, að sjálfsagt níutíu og níu orð af hundraði, sem hv. þm. hefir sagt hjer, gæti jeg skrifað undir, þó að jeg sje honum alveg ósammála um sjálfa tillöguna. Það er fjarri minni skoðun, að það sje nein goðgá að minka stúdentafjölda frá mentaskólanum. Það er ekki nema eðlilegt, að menn vilji gera einhverjar ráðstafanir til að takmarka töluna. Þegar breyting Akureyrarskólans var til umr. á síðasta þingi, gerði jeg grein fyrir minni skoðun á þessum skólamálum, þar sem jeg talaði á móti breytingu á skólanum, af því það myndi auka stúdentaframleiðslu í landinu. Aftur á móti er alt af mikil þörf fyrir vel mentaða gagnfræðinga, en hætt við, að æðimargir stúdentar enduðu með því að verða ríkinu til byrði.

Hv. flm. (JJ) rakti sögu þessa máls, og einmitt við það kom í ljós, að þeir voru tímar, að stúdentaviðkoman var ekki of mikil hjer á landi. Þá var skólinn óskiftur, þyngri, og námið byrjaði með alvöru, og varð það til að vinsa úr hina bestu námsmenn. Þá var viðkoman rjett við hóf, en 1904 var gerð stór breyting á skólanum. Frá þessum tíma er sprottin hin stöðuga fjölgun stúdenta, þótt ekki brygði við strax eftir breytinguna. Þetta var eðlilegt, og hefði mátt vita það fyrirfram. Með núverandi fyrirkomulagi er námsmönnum gert svo hægt fyrir, að þeir geta flotið næstum því sofandi gegn um allan skólann. Það er enginn þröskuldur, enginn foss yfir að stökkva úr barnaskólanum og yfir í mentaskólann, svo að menn geta orðið stúdentar, án þess þeir eiginlega viti af, eða viti, hvað þeir ætla sjer síðan að taka fyrir. Annað, sem valdið hefir fjölguninni, er það, að nú rennur í mentaskólann önnur elfa — og nærri eins mikil — frá Akureyri. Þetta tvent er orsök fjölgunarinnar. Einnig er eðlilegt, að eftir því sem þjóðinni fjölgar í heild sinni, verði þeir eitthvað fleiri, sem ganga vilja mentaveginn.

En þessi ofvöxtur er að verða þjóðarböl, og til þess að bæta úr því, hygg jeg, að heppilegt mundi að hverfa aftur að því ástandi, sem áður var og sem vel hefir gefist.

Hv. flm. (JJ) bar okkur í þessu efni saman við Dani. Sjeu tölur hans rjettar, sem jeg efast ekki um, er stúdentaframleiðsla vor þó ekki eins ægileg og ýmsir hafa haldið. Sumir hafa haldið, að hún væri þrefalt eða fjórfalt meiri en í Danmörku.

Hvað á að gera til þess að bæta úr þessu? það er málið, sem hjer liggur fyrir. Ráðin, sem hv. flm. (JJ) hefir bent á, eru í raun og veru ekki annað en ein mynd af þeirri hafta-pólitík, sem nú gægist fram á öllum sviðum. Hann lætur sjer ekki detta í hug að breyta fyrirkomulaginu, og vita, hvort ekki væri hægt að fá heilbrigða útkomu, nei, honum dettur ekkert í hug annað en leggja á bein höft.

Jón Ófeigsson kennari hefir nýlega skrifað greinarkorn, og sýnt fram á örðugleikana á að framkvæma hugmynd þessa. Orð þessa manns er óhætt að meta mikils í þessum sökum. Af því jeg býst við, að hv. flm. (JJ) hafi lesið þessa grein, hjelt jeg, að hann hefði eitthvað fram að færa, sem ræki þær ástæður til baka, sem þar eru fram taldar gegn tillögunni. En þar sem jeg geri ráð fyrir, að hv. þm. hafi kynt sjer nefnda grein, þarf jeg ekki að minnast á hana frekar.

Hv. flm. (JJ) gerir ráð fyrir samkepnisprófi á hverju hausti, auk venjulegs prófs. Þá eiga þeir, sem lokið hafa prófi við gagnfræðaskólann á Akureyri eða hjer, að koma hingað að haustinu og taka próf upp í lærdómsdeildina. Nú skulum við segja, að 50, 60 eða máske 70 menn taki þetta próf, en fyrirfram er svo ákveðið, að aðeins 25 af þeim skuli fá að setjast í skólann. Hinir verða að hverfa frá við svo búið, án nokkurs árangurs. Það hefir verið talað talsvert um hryggbrot hjer í deildinni að undanförnu. Þarna á orðið við. Þessir piltar, sem yrðu frá að hverfa, fengju einmitt hryggbrot. Og á því er enginn vafi, að þetta yrði töluverður hnekkir fyrir þá. Þetta yrði skoðuð hin mesta sneypuför, og auk þess kæmu þeir heim talsvert fátækari en þeir fóru. Reynslan yrði sú, að fæstir utan af landinu mundu vilja eiga þetta á hættu. Og þá kæmi nú fyrst öfuga úrvalið fram í algleymingi, því að Reykvíkingarnir mundu skila sjer með tölu, en bráðgáfaðir en fátækir piltar utan af landi þyrðu alls ekki að leggja í þetta.

Hv. flm. (JJ) hefir ekki rætt um það, hvernig prófin skuli fara fram. Hvort á að endurtaka gagnfræðaprófið eða hafa sjerstakt próf, sem veiti piltum rjett til að setjast í lærdómsdeildina? En hvort heldur sem er, þá er það víst, að enginn, sem ekki hefir haft tækifæri til að opna bók alt guðslangt sumarið, leggur út í taka slíkt próf að haustinu. Kemur þar ennþá betur fram en áður, að þessir 25 verða einmitt öfugt úrval, Reykvíkingar og efnaðir piltar utan af landi. Ætti hv. flm. (JJ) að gera betur grein fyrir þessu og sýna fram á, að af hverju hundraði fáist í lærdómsdeildina 25 þeir gáfuðustu af piltum, en ekki þeir 25, sem hafa besta aðstöðu.

Satt er það, að samkepnispróf eru algeng við erlenda háskóla. En þar er öðru til að dreifa en hjer. En jafnvel við stóra háskóla, eins og t. d. háskólann í Kaupmannahöfn, fara þau alls ekki fram nema einstaka sinnum, eða með öðrum orðum aðeins þá, þegar erfitt er að úrskurða, hverjum af tveimur eða fleirum umsækjendum beri embætti, sem laust er. Og við slík próf reynir ekki einungis á bóklega þekkingu mannsins, heldur og á vísindamensku hans. Svo hafa slíkir menn góðan tíma til að lesa skruddur og skræður áður en til samkepninnar kemur, og sje jeg ekki, að þetta sje að neinu leyti sambærilegt við það, sem hjer er um að ræða.

En hvað sem þessu líður, get jeg verið sammála hv. flm. (JJ) um það, að þörf sje á að hefta eitthvað stúdentastrauminn. Jeg hefi áður bent á ráðið, sem mundi duga, og hefir í reynslunni gefið rjetta niðurstöðu.

Hv. flm. (JJ) sagði, að það væri ekkert að marka það, sem þeir segðu um eldra fyrirkomulagið, sem við það hefðu átt að búa. Jæja, margt mætti nú frekar hafa á móti því en það, að við, sem vorum í skóla, þegar það var ríkjandi, erum ánægðir með það. Hv. flm. vildi nú samt bera brigður á gæði þess, og sagði, að þeim ljelegu hefði verið hjálpað til þess að ná prófi, en ef þessi takmörkun kæmist á, væri ekki slíku til að dreifa.

Það er alls ekki meining mín, að latínan sje neinn lífselixír. Mjer er nær að halda, að hvaða námsgrein, sem tekin væri, og nægar kröfur gerðar til kunnáttu pilta, mundi gera svipað gagn. En latínan er skemtilegt og fagurt mál, og á henni göfugar og andríkar bókmentir. Svo má líka á það benda, að afarmikil reynsla er fengin í að kenna hana. það, sem hv. flm. talaði um að Reykvíkingar þyrftu að koma sjer upp skóla fyrir almenning, sje jeg ekki, að komi þessu máli við. En hitt vil jeg fullyrða, að heppilegra er að takmarka tölu nemenda í lærdómsdeildinni með því að taka upp að miklu leyti svipað fyrirkomulag og áður var, heldur en að aðhyliast till. hv. flm.

Jeg vil þá drepa á með nokkrum orðum mentaskóla á Akureyri, og skoðun hv. flm. á því máli. Hann mintist á þann fyrirhugaða skóla í ræðu sinni, og get jeg skilið, að honum væri það dálítið örðugt. Það er sem sje á allra vitorði, að hann er mjög hlyntur mentaskóla á Akureyri. Jeg sagði líka, þegar jeg sá þessa till. hv. flm.: „Öðruvísi mjer áður brá“, því að varla getur fundist mikil samkvæmni í því að vera á síðasta þingi eindreginn fylgismaður þess að setja upp nýjan stúdentaskóla við hlið þess, sem nú er, og bera nú fram eindregna tillögu um fækkun stúdenta í framtíðinni. Eða getur nokkur vafi á því leikið, að ný „stúdentaverksmiðja“ verði til þess að fjölga stúdentum? Eigi það svo að vera þannig í framtíðinni, að aðeins 25 menn eigi að sleppa inn í 4. bekk árlega, þá held jeg, að varla taki því að hafa skólana tvo einkum er tekið er tillit til þess, að altaf munu einhverjir þessara 25 heltast úr lestinni, áður en stúdentsprófinu er náð. Þá tel jeg, að betra sje að koma upp heimavistum hjer við skólann, svo að námið verði þar ódýrara, og þyngja námið að miklum mun.

Jeg lít því yfirleitt svo á, að till. hv. flm. nái alls ekki tilgangi sínum, og eina ráðið, sem dugi, sje að þyngja skólann, gera hann frá byrjun að lærdómsskóla. Sje jeg því ekki, að deildin geti gert annað skynsamlegra við þessa till. en að fella hana.