04.04.1924
Sameinað þing: 3. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 220 í D-deild Alþingistíðinda. (3119)

41. mál, takmörkun nemenda í lærdómsdeild

Sigurður Eggerz:

Jeg tek hjer til máls út af því, sem hv. 5. landsk. (JJ) sagði um að jeg hefði stofnað í haust nýtt embætti við mentaskólann. Hann mun hafa átt þarna við það, að Kristni Ármannssyni var veitt kensla við skólann í vetur. En það er alls ekki rjett, að jeg hafi þarna stofnað nýtt embætti.

Svo stóð á, að þessi gáfaði og efnilegi maður hafði lokið meistaraprófi í grísku og latínu, og bauðst honum adjunktsembætti í Ribe í Danmörku. Mikilsmetnir menn, bæði við mentaskólann og utan hans, töldu, að landinu væri skaði að því að missa þennan mann. Og vegna ágætra meðmæla frá kennurum mentaskólans og annarsstaðar frá, var honum gefinn kostur á að kenna við skólann í vetur. Launin voru ákveðin lægstu adjunktslaun, og hefi jeg athugað það, að á þeim er afarlítill munur og þeim launum, sem hann hefði fengið, ef honum hefði aðeins verið goldið tímakaup. Vil jeg taka það fram, að jeg hefi aðeins lofað honum kenslunni þennan eina vetur, svo að um stofnun nýs embættis er þarna alls ekki að ræða.

Hæstv. forsrh. (JM) gat þess til, að till. mundi ekki eiga sjer langan aldur. En jeg þykist hafa fylstu ástæðu til að halda, að annað verði ofan á. Mjer finst hljóðið í hv. þm. nú vera þannig, að ekki þurfi að búast við miklum skilningi á slíkum málum sem þessu.

Frv. það um breyting á lögum um skipun kennara, sem nú liggur fyrir Ed. og verið hefir samþykt í hv. Nd., verður blátt áfram að skoðast sem árás á almenna fræðslu í landinu. Ef ráða má af því frv., virðist það vera skoðun hv. þm., að rjett sje að þrengja sem mest að allri mentaviðleitni í landinu. Og þó að jeg greiði atkvæði á móti þessari tillögu, sem hjer liggur fyrir, þá ber jeg alls ekki það traust til hv. þm., að jeg búist við, að þeir taki í rjettan streng í þessu máli.