04.04.1924
Sameinað þing: 3. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 221 í D-deild Alþingistíðinda. (3120)

41. mál, takmörkun nemenda í lærdómsdeild

Flm. (Jónas Jónsson):

Jeg tel það góðs vita fyrir þetta mál, að sá hv. þm., sem aðallega hefir reynt að hrekja ræðu mína, byrjar mál sitt með því að segja, að hann sje mjer sammála um 99% af því, sem jeg hefi sagt. Jeg tek mjer þetta til inntekta, og það litla, sem okkur ber á milli, er svo óverulegt, að það ætti ekki að koma til greina í svo góðu máli sem þessu. Hv. 4. þm. Reykv. (MJ) sagði, að það mætti líta á þessa tillögu mína sem áframhald af hafta-pólitíkinni, í andlegum skilningi.

Hv. 1. landsk. (SE) talaði hart um hina illu meðferð Nd. á fræðslulögunum og tókst að verða hjartnæmur í tali sínu um þau. En það, sem á milli ber hv. 4. þm. Reykv. (MJ) og mín, eru ekki höftin, því að rauði þráðurinn í gegnum alla ræðu hans var sá, að hefta þyrfti fjölgun stúdenta. Hv. þm. (MJ) vill sjálfur hafa höft á fjölgun stúdenta, en aðeins önnur höft en jeg. Hann vill latínuna sem haft. Þess vegna er það fjarstæða af honum að áfellast mig fyrir að hafa komið fram með þessa till., þótt okkur deili á um leiðir að sama marki. Jeg vil hafa alment samkepnispróf, og erum við því sammála í aðalatriðunum; hitt eru aðallega smávægileg atriði, sem okkur ber á milli. Hann mintist á latínuna og sagði margt um yfirburði hennar, enda hefði eldri kynslóðin verið mjög ánægð með hana sem aðalnámsgrein í skólanum. En hann gleymdi því, að það var einmitt fyrir áhrif eldri manna, sem latínan varð að þoka úr öndveginu. Menn eins og Gestur Pálsson, Jón Jacobson o. fl., börðust á móti henni og tókst að hrinda henni af stóli. Jeg vil og benda á þau áhrif latínunámsins, að ýmsir hinna eldri latínulærðu manna eru nú á móti því að breyta kenslunni í skólanum latínunni í vil, og auk þess mun það erfitt að koma þeirri breytingu á, fyrir mótstöðu ýmsra yngri manna. En t. d. hjer í þinginu eru ýmsir eldri menn, sem eru latínunni andvígir, t. d. hv. 1. landsk. (SE). Hann er eldri maður en hv. 4. þm. Reykv. (MJ), en 1. landsk. (SE) er á móti latínunni. Þótt menn nú vildu breyta skólanum í þá átt að setja latínuna inn aftur, yrði það ókleift; það mundi alls ekki takast. En þetta getur alveg eins komið til mála, ef menn endilega vilja reyna að setja latínuna inn aftur, þó að mín till. verði samþykt. Þetta er aðeins fyrirkomulagsatriði, að valdir skuli úr þessir 25 nemendur. Mín till. gengur aðeins út á það eitt að fækka þeim mönnum, sem undir verða í samkepni lífsins að afloknu námi. Jeg er ekkert að deila um, hvað sje nýtt og hvað sje gamalt, heldur hitt, hvað þjóðinni sje fyrir bestu.

Hv. 4. þm. Reykv. (MJ) þótti undarlegt, að jeg svaraði ekki neinu til þess, sem hr. Jón Ófeigsson hefir nýlega skrifað um þetta mál. Jeg vil nota þetta tækifæri til að víta þennan nýja ósið, sem alls ekki er orðinn óalgengur, að þm. svari blaðagreinum í ræðum sínum hjer á Alþingi. Þeir eiga að svara á sama vettvangi, þ. e. í blöðunum. (SE: En þeir, sem engin blöð hafa?) Þeir eiga þá að koma sjer betur við þá, sem blöðin hafa. Jeg tel þetta alveg ósæmilegan ósið, og því dettur mjer ekki í hug að svara þessu hjer, en mun gera það, er tími vinst til, á rjettum vettvangi.

Það, að samkepnisprófin sjeu óhugsandi vegna „tekniskra“ örðugleika, held jeg, að geti ekki verið alvara hv. 4. þm. Reykv. (MJ). Jeg álít þetta aðeins lítilfjörlegt fyrirkomulagsatriði, svo að jeg jafnvel treysti hæstv. forsrh. (JM) til að koma þessu í framkvæmd, þrátt fyrir það, að hann sýndi annars lítinn skilning á þessu máli í ræðu sinni hjer í dag, og enn betur treysti jeg kennarastjettinni í þessu efni. Það er annars merkilegt, að menn skuli draga í efa, að þetta sje framkvæmanlegt, þegar þetta hefir átt sjer stað áður í skólanum, t. d. í skólatíð hv. 4. þm. Reykv. (MJ), að mönnum var skift eftir prófin og raðað í sæti eftir kunnáttu og einkunnastiga prófanna. Þetta fór víst þrisvar sinnum fram á hverjum vetri, og var aldrei efi á, hvar hver var í röðinni. Jeg vil ekki gera svo lítið úr kennarastjettinni, að fara að setja reglur um þessi próf, sem kennararnir hafa svo mikla æfingu í.

Það hefir verið sagt, að það væri sárt hryggbrot fyrir þá, sem frá yrði vísað þessum prófum. Það lítur út fyrir, að það sje af mannúð einni, að skólinn hefir þanist svo út, að hann kostar nú 120 þús. kr. á ári í stað 20 þús. fyrir 40 ár um. Það sje mannúð að vísa ekki frá en þó eru menn sammála mjer í því, að rjett sje að hindra aðsóknina að skólanum. Jeg hefi bent hjer á eitt „haft“ til þess að smella um fætur ungu mannanna, svo að þeir komist ekki alt of auð veldlega inn í skólann. Það er yfir höfuð ekki hægt að komast hjá hryggbrotunum. Lífið hryggbrýtur helming þeirra manna eða meira, sem þennan veg ganga. Og einmitt í þessu erum við sammála, hv. 4. þm. Reykv. (MJ) og jeg, að við viljum heldur hefta aðstreymið að skólanum en láta þessi hryggbrot eigi sjer stað, eftir að menn eru búnir að eyða 12–15 árum af æfi sinni til undirbúnings þeirra starfa, sem ekki eru til handa þeim, en mennirnir þá orðni óhæfir til alls annars. Þetta er að forða mönnum frá því stærsta hryggbrot sem getur í lífinu.

Vinsældir latínunnar eru ekki sýnilegar, þótt einhverjar kunni að vera. Það hefir verið margt tekið hjer fram um hinar miklu og merkilegu bókmentir, sem til sjeu á því máli og það má ger ráð fyrir, að hjer í bænum sjeu menn sem kunna latínu, svo skiftir hundruðum manna, en þó er mjög lítið lesið að þessum bókmentum hjer í bæ. Jeg hef að heimildarmanni mann, sem vinnu við landsbókasafnið, að sum árin sje það eigi nema ef til vill 3–4 menn sem taki latneskar bækur heim með sjer til skemtilesturs. Þetta er þungur áfellisdómur yfir latínuna, þegar ekki er hægt að gera þessa menn, sem lengi hefir verið kent af dugandi kennurum, hrifnari en það af þessu máli, að þeir vilja ekki nota tómstundir sínar til þess að drekka í sig þessi „klassisku“ fræði. Þetta sannar ósannindin í því, að klassisku málin sjeu nothæf sem menningarmeðul.

Jeg er samdóma hv. þm. í því, að ef það á að fara að breyta skólanum yfirleitt, vil jeg láta þá breytingu ná til Akureyrarskólans líka og hafa hann í líkingu við norska sveitaskóla, og skal jeg þá vera því meðmæltur að innleiða aftur latínuna í mentaskólann hjer, eða þó öllu fremur grískuna, sem er miklu fegurra mál og hefir meiri bókmentafjársjóði að geyma en latínan. En þá ætti að kenna þessi mál svo vel, að menn gætu lesið þessar bókmentir sjer til daglegrar ánægju líkt og mentamenn gerðu á Englandi á 19. öldinni. Latínan kemur annars ekki þessu máli við, því það má beita sömu takmörkunum, þó að hún sje innleidd í skólann, en um leið og skólanum verður breytt í latínuskóla, verða margir gáfumenn útilokaðir frá námi, sem nú nota Akureyrarskólann fyrst, eða eru að reyna að basla áfram utan skóla, vegna þess, hve dýrt er að vera við nám í Reykjavík. Það er mörgum námsmönnum alveg ókleift að stunda nám hjer, en geta nokkurnveginn baslast áfram við það utan Reykjavíkur. (MJ: Heimavistarskóli yrði ódýrari fyrir þá). Yrði það landinu ódýrara? Hvað kostuðu Hvanneyrarskólahúsið og Vífilsstaðahúsið, sem reist hafa verið á síðustu tímum? Er ástæða til að fara að byggja fyrir t. d. 300 þús. kr. skólahús, þegar til er jafngott hús og Akureyrarskólinn, og mjög vel fallinn til heimavistar?

Þá sagði hv. 4. þm. Reykv. (MJ) að ómögulegt væri að komast utanum það, að stúdentatalan ykist að mun, ef skólarnir yrðu tveir, fremur en aðeins einn skóli, eins og nú er. Hæstv. forsrh. (JM) vill með velþóknun viðhalda því fyrirkomulagi, sem nú er, og koma því að engu tilraunir til að draga úr kostnaði við skólahaldið hjer eða að hefta stúdentaframleiðslu með því að breyta forminu á Akureyrarskólanum. Þá koma upp ótal hendur á móti þessu og telja engan sparnað í þessu og vilja yfirleitt engan sparnað. (BL: Akureyrarskólinn er gagnfræðaskóli og á að vera það). Norðlendingar og Akureyringar eiga sjálfir að sjá fyrir þeirri fræðslu á sama hátt og önnur hjeruð landsins, enda ætti þeim ekki að veitast það örðugt með forgöngu jafn-ágæts mentamálaforkólfs og þm. Ak. (BL).

Það var ánægjulegt að heyra 4. þm. Reykv. (MJ.) tala um þetta mál með áhuga skólamannsins, þótt hann liti öðrum augum á þetta en jeg, en það skifti fljótt í tvö horn, þegar kom til kasta stjórnarinnar. Þá var ekki um annað talað en láta reka á reiðanum með það ástand, sem nú er. Það er ekki talað úr þeirri átt um, að bráðan bug þurfi að þessu að vinda, en haldi þessu áfram og engri þvingun verði beitt til þess að draga úr aðsókn í skólann, heldur þessi eyðsla áfram, og er þá ekki um nema eina leið að gera, leið, sem leiðir beint út í vitleysu: að vera að ala upp ótal menn með langskólaþekkingu, sem ekkert geta svo fengið að gera, sem er við þeirra hæfi. (BL: Þetta er atvinnupólitík). Þau eru nú mörg, atvinnupólitísku málin á þessu þingi. (BL: það er rjett). Hæstv. forsrh. (JM) segir, að ekki hafi verið bætt við embættum við mentaskólann og sje því ekki um neitt ólöglegt þar að ræða, en játar, að bætt hafi þó verið þar við manni, sem hann segir, að ekki heyri undir launalögin, og því aldrei verið samþyktur af þinginu. Þingið hefir aðeins samþykt heildarfjárveitingu til skólans. Þetta virðist hafa komið eitthvað illa við kaun hans, er talað var um makk milli mentaskólans og stjórnarvaldanna í þessu efni. Þá var hann að sanna, að það væri rangt hjá mjer, að erfitt væri að stunda nám hjer og læsu því margir utan skóla; hann nefndi, að margir væru hjer í skólunum, sem komið hefðu inn í hann frá Akureyrarskólanum. En hann tók það ekki fram, að þetta eru mest efnuðustu nemendurnir. Hve margir eru þar af fátækum gáfumönnum, norðlenskum eða austfirskum? Og hve margir verða þeir, þegar farið verður að kenna þar latínuna, samkvæmt till. hv. 4. þm. Reykv. (MJ)? þá koma engir 10–20 nemendur frá Akureyri, því þá er búið að loka fyrir þeim skólanum, fullkomlega til hagnaðar fyrir Reykvíska nemendur, en alt samband fátækra sveitapilta utan af landi er þá slitið, en þeir hafa margir notað Akureyrarskólann sem einskonar brú yfir að háskólanámi. Þá er skólinn aðeins orðinn fyrir efnaða menn út um land og svo Reykvíkinga.

Þá skildist mjer, að hæstv. forsrh. (JM) vildi veita straumnum frá mentaskólanum inn í kvennaskólann. Hann ætti þá að semja um það við fyrverandi sessunaut sinn, hv. 6. landsk. (IHB), að bera fram frv. um breytingu á kvennaskólanum í einhversháttar samskóla, eða kvennaskóla með jöfnum inntökuskilyrðum fyrir karlmenn! Jeg vænti því, ef hæstv. forsrh. (JM) er þetta áhugamál, að hann undirbúi þetta til næsta þings og komi þá fram með stjórnarfrumvarp um þetta efni. Hann vildi og bera brigður á það, að maður með háskólaprófi hefði orðið að ganga að algengri vinnu hjer við hafnargerðina, en það var óþarft, því dæmið er alveg rjett og alkunnugt, enda síst til vansa í sjálfu sjer; maðurinn er þektur maður hjer í bænum, og vita því allir, að þetta er satt. Það mundi auðvitað þykja tíðindum sæta, ef hæstv. forsrh. (JM) færi að vinna erfiðisvinnu, enda þótt hann hefði eflaust gott af því. Það er ekki mín skoðun, að fyrirlitlegt sje, að lærðir menn gangi til algengrar erfiðisvinnu, en almenningsálitið er nú svona, að þetta er talið óviðeigandi eða hefir verið talið svo, og er það því næg ástæða fyrir því, að eigi sje rjett að uppala fleiri háskólagengna menn en þörf er fyrir, meðan þetta álit helst óbreytt og menn ekki geta lyft sjer yfir aldarandann.

Hv. 1. landsk. (SE) mintist á það embætti, sem hann stofnaði í haust, og er jeg honum þakklátur fyrir skýringuna. Segist hafa tekið þennan mann hingað heim, vegna þess, að skólinn þurfi hans með, en þessi sjerfræðingur í grísku og latínu er ekki látinn kenna þau fræði, heldur ýmislegt annað. Hann hefir því ekki verið tekinn vegna aðkallandi þarfar, heldur vegna þess, að mikilsmetinn maður við skólann taldi þetta heppilegt fyrir framtíðina. Sjá nú menn ljóst, hvert stefnir í þessu með skipulag skólans, ef aðeins einhver mikilsmetinn maður biður um, að bætt sje við einhverjum manni, skal það gert. Jeg segi það ekki, að það sje rangt að ráða þennan mann að skólanum, því þetta mun vera ágætur maður í alla staði, en jeg segi, að á þessu hausti hafi ekki verið þörf á því, og þessvegna rangt að bæta manni við. Hæstv. forsrh. (JM) hefir spáð því, að þessi till. mín verði ekki langlíf; um það skal jeg ekki deila við hann. Getur vel verið, að hann sje spámannlega vaxinn. Það var sagt af hv. 1. þm. Rang. (EP), að spámannavaxtarlagið væri „stutt og hnubbaralegt“. Get jeg þá gefið þeim, er heyrðu þessa lýsingu, tækifæri til þess að prófa spádómsgáfuna. Jeg ber ekki þessa till. fram eingöngu fyrir augnablikið, heldur vegna þess, er jeg álít vera rjett, og vegna framtíðarinnar. Það mun síðar sjást, hvað jeg hefi fyrir mjer í þessu, og er það alment viðurkent, að mentaskólinn er orðinn bæði of dýr og umfangsmikill. Jeg er sannfærður um, að ekki er hægt að koma til framkvæmda þeirri formbreytingu, sem vakir fyrir hv. 4. þm. Reykv. (MJ), og er því ekki annað ráð eftir en það, sem jeg nú hefi bent á. Jeg óska sparnaðarmönnunum til hamingju, ef þeir drepa þessa till. mína, án þess að koma með nokkuð annað í staðinn, og jeg held því fram, að minn hlutur sje ekki verri fyrir það að halda fram rjettu máli, sem síðar mun ná að ganga fram, þótt falli nú, en hinna, sem nú hafa unnið um stund vesælan Pyrrusarsigur.