04.04.1924
Sameinað þing: 3. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 230 í D-deild Alþingistíðinda. (3122)

41. mál, takmörkun nemenda í lærdómsdeild

Magnús Jónsson:

*) Sannleikurinn er sá, að okkur ber á milli um alt þetta mál. Og hann (JJ) játar, að í raun og veru komi það, sem hann hefir mest um rætt, ekkert till. við. Í sjálfu sjer er hún mjög einföld.

Misskilningur er það hjá hv. 5. landsk. (JJ), ef hann heldur, að jeg hafi ætlast til, að hann færi hjer að hrekja blaðagreinir. En hitt vildi jeg láta hann ósanna, sem jeg sagði í seinustu ræðu minni, að þetta fyrirkomulag myndi ekki blessast. Geti hann það ekki, þarf hann heldur ekki að brýna okkur hina á því, að okkur hafi heldur ekki tekist að finna annað betra ráð. Það eru svo margir örðugleikar á þessu, sem ilt er að bæta úr.

Að stúdentaframleiðslan sje of mikil er þegar viðurkent. Og ef til vill verður ekki við þetta ráðið, meðan skólinn býður svo að segja öllum opinn faðminn. En að hans ráð sje heppilegast gegn þessum annmörkum, tel jeg ekki sennilegt.

Þá fór hann yfir þá teknisku örðugleika, sem hann nefndi svo. Talaði hann um, að einu sinni hefði verið raðað í bekkina eftir kunnáttu, og út af því dró hann þá ályktun, að ekki ætti að vera meiri erfiðleikar á því nú að meta kunnáttu nemenda. En örðugleikarnir eru heldur alls ekki í þessu fólgnir. Örðugleikarnir eru samfara því að stefna hingað árlega sæg af mönnum utan af landi til þess að reka þá svo heim aftur. Raunar eru prófinngangsskilyrði í skólann, en þau miðast við það þekkingarstig, sem er ekki sett hærra en svo, að hverjum meðalmanni með nokkrum námsgáfum og þekkingu, er unt að ná lágmarkinu. Það er ekki til þess gert að senda menn heim aftur. Þetta er því tvent alls ólíkt. Við venjuleg próf er sagt: Ef þú nærð ekki ákveðnu takmarki með prófinu, verður þú ekki tekinn. Það er eðlilegt. En hjer á að segja: Af þessum hóp (50–70 manns) komast einir 25 inn, þeir, sem hæsta einkunn fá. Hinir verða að fara, jafnvel þótt prófið sýni góða kunnáttu. Þetta er ranglæti. Hjer er ekki miðað við ákveðið þekkingarstig, heldur ákveðna tölu. Eitt árið kæmust ef til vill menn inn í skólann með miklu lægri einkunn en ýmsir af þeim afturreka höfðu næsta ár á undan. Það færi eftir hreinni hendingu. Líklega yrðu það ekki nema Reykvíkingar og hinir efnuðustu menn utan af landi, sem tækju á sig þá áhættu að leggja út í námið, þegar svo væri í pottinn búið.

Hæstv. forsrh. (JM) benti á, hver aðsókn Reykvíkinga að mentaskólanum væri. En hvað háskólann snertir, þá hefi jeg reynt að fá lauslegt yfirlit yfir aðsóknina utan af landi og úr Rvík, með því að fara í gegnum árbækurnar, og verð jeg að segja, að hlutfallið er mjög eðlilegt. Í guðfræðisdeildinni hafa flestir nemendur jafnan verið utan af landi. Reynslan hefir líka verið sú, að margir Reykvíkingar, sem laðast að mentaskólanum, hætta að afloknu gagnfræða- eða stúdentsprófi.

Óþarfi er það að fara að rífast um latínuna. Um flestar námsgreinarnar er það svo, að menn leggja litla stund á þær þegar út úr skólanum kemur. Svo er það t. d. með náttúrufræði og stærðfræði engu síður en latínuna. Útskrifaðir menn vita ekki einu sinni um nafn á algengustu plöntum, hvað þá að þeir þekki nokkra stjörnu. Þá rámar kanske fyrst í stað í einhver nöfn, en eftir nokkur ár hafa þeir enga hugmynd um neitt af því. Jeg veit raunar ekki, hvort með þessu er nokkur skaði skeður. Mentunin er eftir, þegar menn hafa gleymt öllu, sem þeir hafa lært, segir gamalt spakmæli. Jeg játa líka, að latínan er komin í niðurlægingu, og jeg vissi, að á minni tíð í skóla lögðu piltar ekki eins mikla stund á hana og þeim hefði verið unt. Og jeg hefi sjálfur oft fundið til þess, hversu erfitt jeg hefi átt með hana.

Þá hefir hv. flm. (JJ) blandað inn í umræðurnar þessum manni í hafnarvinnunni. En ekki skil jeg, að það dæmi geti sannað neitt. Hann talaði líka um það, að mönnum með þessa mentun þætti óviðkunnanlegt að vinna líkamlega vinnu, og það þætti fremur óvirðing að því. Jeg held, að því sje fremur svo varið, að menn undrist yfir því. Ef t. d. forsrh. (JM), svo að jeg haldi hans eigin dómi áfram, tæki einn góðan veðurdag að vinna eyrarvinnu, þá mundi menn reka í rogastans yfir því, af því, að þar er hann kominn á annað svið en það, sem menn hefðu búist við að hann starfaði á. Mönnum kemur það að vonum kynlega fyrir sjónir, að maður, sem eytt hefir mörgum bestu árum sínum til að búa sig undir eitthvert starf, fari að vinna að einhverju því, sem einskis undirbúnings krefst. Það er um þá eins og bóndann, sem sagðist vera of dýr til að búa. Að hinu leytinu er aldrei loku fyrir það skotið, að menn, sem svo eru skapi farnir, geti haft fyrirlitningu á öllu mögulegu.

Þá mintist sami hv. þm. (JJ) á Akureyrarskólann. Var það eins og þegar rætt var um hann í Nd. í fyrra. Það var altaf verið að guma af þessu ágæta húsi, sem hann ætti, eins og það eitt væri óhrekjandi sönnun þess, að þar ætti að koma mentaskóli. Jeg hjelt sannast að segja, að nóg væri að gera með þetta hús eins og stendur. Það eru líka ýms ágæt hús til hjer í Reykjavík, t. d. pósthúsið og Landsbankahúsið, en þau eru bara notuð til annars en skólahalds. Það er því enginn vísdómur, að hægt sje að fá húsnæði með því að reka aðra út, sem þar eru fyrir og þurfa þess með.

En þetta eru nú aðeins athugasemdir á víð og dreif. Um till. sjálfa er það eitt að segja, að með henni er engin lausn fengin á þessum vandamálum. það má auðvitað altaf stinga upp á hinu og þessu sem óyggjandi bjargráði, en það bara dugar ekki. Það má t. d. koma með volgt vatn í bolla til sjúklings og segja honum að taka það inn, þrjár teskeiðar þrisvar á dag, þá muni honum batna. En gallinn er, að honum batnar ekki. Eitthvað samskonar meðal er það sem hjer er á ferðinni, að ætla sjer að greiða úr Örðugleikum með öfugu úrvali, sem ekki má eiga sjer stað.

*) Hjer vantar upphaf ræðunnar í handrit skrifarans. M. J.