22.02.1924
Neðri deild: 6. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 247 í D-deild Alþingistíðinda. (3139)

24. mál, skipun viðskiptamálanefndar

Flm. (Tryggvi Þórhallsson):

Það mun þykja hlýða, að jeg fylgi þesari tillögu úr hlaði með fáum orðum af hendi vor flutningsmanna.

Á Alþingi 1921 báru þeir núverandi 1. þm. Reykv. (JÞ), 3. þm. Reykv. (JakM) og þm. Dala. (BJ) fram samskonar tillögu sem þessa, og náði hún fram að ganga. Á þinginu 1922 fluttu 7 þm. úr Framsóknarflokknum enn svipaða tillögu, sem einnig var samþykt. En í fyrra kom engin slík tillaga fram og engin viðskiftamálanefnd skipuð.

Vjer flutningsm., en það eru, eins og menn munu hafa tekið eftir, allir Framsóknarflokksmennirnir hjer í hv. deild, að undanteknum ráðherranum, teljum ekki síður ástæðu nú en áður til að slík nefnd verði skipuð, og skal jeg nú rökstyðja þessa skoðun vora nokkuð.

Jeg skal þá fyrst nefna kjöttollsmálið, sem slík nefnd þyrfti fyrst og fremst að athuga. Það er lýðum ljóst, hvernig því máli er komið nú og að það er svo mikið mál, að því verður að ráða til lykta á þessu þingi, meðan stórþingið norska situr á rökstólum. Það mun lítil von til þess, að nokkur úrslit fáist eftir að stórþinginu er lokið, því að norska stjórnin er nú svo veik, að hún mun ekki ráða öðru eins máli til lykta án samþykkis þingsins. Það þarf því að skera nú þegar úr þessu máli á annanhvorn veginn, hvort sem vjer getum komist að samningum eða ekki.

Vjer flutningsmenn ætlumst til, að hin fyrirhugaða viðskiftanefnd taki þetta mál til rækilegrar íhugunar. Náist ekki samningar um málið, verður nefndin að athuga sjerstaklega rækilega, hvað gera skuli til að afstýra þeirri miklu hættu, sem yfir vofir, ef íslenskir bændur stæðu uppi að hausti markaðslausir fyrir kjöt sitt. Hvort t. d. væri tiltækilegt að afla sjer kæliskips til þess að reyna að finna markað annarsstaðar að einhverju leyti, og ljetta þannig á saltkjötsmarkaðinum, ef aðalmarkaðurinn brygðist. Fleiri ráða yrði ef til vill að neyta, því að þingið getur ekki skilist við þetta mál, án þess að gera ráðstafanir til að reyna að bjarga öðrum aðalatvinnuvegi landsins.

Jeg vil nú grípa tækifærið til þess að víkja nokkrum orðum að hæstv. forsrh. (SE) og láta í ljós óánægju mína og þess flokks, sem jeg telst til, yfir aðgerðum hans í einu atriði þessa máls.

Það er alkunna, að í desember síðastliðnum fengu menn dálítinn vonarneista um, að þessu máli yrði bráðlega ráðið til lykta. Um miðjan mánuðinn kom skeyti frá sendiherra vorum í Kaupmannahöfn, þess efnis, að það mundi bráðlega verða borið fram í norska stórþinginu að fela stjórninni að semja við oss um málið. Jeg veit, að sendiherrann muni hafa þóst hafa fulla vissu um þetta, er hann sendi skeytið, en þó varð ekkert úr því. Í janúarbyrjun þótti fullsjeð, að þetta myndi ekki verða gert, og fór miðstjórn Framsóknarflokksins þá á fund hæstv. forsrh. (SE) og æskti þess, að send yrði nefnd manna til Noregs til þess að leita um samninga, er skipuð væri fulltrúum landbúnaðar og sjávarútvegsins. þetta var á engan hátt sprottið af vantrausti á sendiherranum, hann átti eftir sem áður að stýra samningaumleitununum, en það var talið æskilegt, að menn með sjerþekkingu í þessum efnum væru við þær riðnir. Það var ekki farið fram á þetta einungis af hálfu þess flokks, er aðallega nýtur stuðnings bændastjettarinnar, heldur einnig af þeirri stofnun, sem hefir á hendi aðalsölu kjötsins fyrir bændur, en það er Samband íslenskra samvinnufjelaga. Hæstv. forsrh. (SE) sló þessu fyrst á frest, en síðar, er málið var fastar sótt, tók hann þvert fyrir að verða við þessum tilmælum. Þegar þessi afstaða hæstv. forsrh. (SE) er borin saman við það, að stjórn Jóns Magnússonar taldi sjálfsagt að senda sjerstakan mann að heiman til Spánarsamninganna, þykir mjer hart, að hann skuli hafa neitað að verða við þessum tilmælum frá þeim stjórnmálaflokki, sem styðst aðallega við bændur, og þeirri stofnun, sem selur mestan hluta kjötsins fyrir þá. Má vera, að hæstv. forsrh. (SE) sjái nú, að betur væri, að þessir menn væru komnir til Noregs til þess að vera á vaðbergi fyrir vora hönd.

Framsóknarflokkurinn sækir fast, að þessi nefnd verði skipuð, svo að hún geti tekið ákvörðun um það nú þegar að senda menn til Noregs. Það stendur sem sje svo á skipaferðum, að nú í kvöld fer skip til útlanda, en sje því skipi slept, er engin ferð fyr en 8. mars, og mundi ef til vill vera orðið helst til seint að senda mennina þá. þetta er stærsta málið, sem gerir það nauðsynlegt, að þessi nefnd verði skipuð.

Jeg skal þá drepa á önnur mál, sem þessi nefnd ætti að láta til sín taka, og er þá fyrst að geta um viðskiftahöft eða bönn. Um það hefir verið allmikið rætt í blöðum og á fundum að undanförnu, og allmargir þingmenn hafa farið að heiman með þá ósk kjósenda sinna, að stofnað yrði til viðskiftahafta. Skal jeg í þessu sambandi skírskota til ræðu þeirrar, er hæstv. fjrh. (KlJ) hjelt fyrir skömmu hjer í hv. deild, að frv. þess efnis muni verða lagt fyrir þingið. Vjer tillögumenn hnígum allir að þessu ráði. Jeg hygg, að öllum geti komið saman um, að hjer er um það stórmál að ræða, að rjett sje að láta sjerstaka nefnd íhuga það í sambandi við önnur skyld mál.

Náskylt þessu máli er það, hvort ekki muni vera heppilegt að skipa hjer gjaldeyrisnefnd. Mjer er kunnugt um, að menn úr stjórn bankanna hafa látið þá skoðun í ljós, að slík nefndarskipun væri nauðsynleg. Væri langeðlilegast, að viðskiftamálanefnd tæki það til íhugunar, hvort ekki mætti rjetta gengið með þessu.

Þriðja stórmálið, sem nefnd þessi ætti að fjalla um, er verslunarrekstur ríkisins. Um það mál hefir einnig verið deilt mjög. Jeg veit með vissu, að margir í þessari hv. deild muni hyggja til mikilla aðgerða um það mál, þótt jeg geri ráð fyrir, að leiðir þeirra og vor flutningsmanna muni ekki fara þar saman. Er eðlilegt, að sjerstök nefnd verði látin íhuga þetta mál, og ætti hún þá sjerstaklega að taka til rannsóknar fyrirkomulag áfengisverslunarinnar.

Með þessu þykist jeg hafa rökstutt, að ríkar ástæður liggi til þess, að skipuð verði viðskiftanefnd. Jeg skal bæta því við, að bæði 1921 og 1922 urðu allmiklar umræður um þessa nefndarskipun, því að í tillögunum, er bornar voru fram, var vikið að einstökum atriðum, er nefndin skyldi fjalla um, og leiðum til að leysa þau. Hjer er ekkert slíkt tekið fram um verksvið nefndarinnar, og vildi jeg því mega æskja þess, að ekki verði rætt um þessi mál nema sem allra minst, enda hefi jeg viljað reyna að gefa ekki tilefni til þess. Jeg tel það ótímabært og hygg, að það geti tæplega orðið annað en lausatök á málunum að ræða þau, meðan þau eru ekki undirbúin. Aðalatriðið er, hvort nefndin skuli skipuð.

Jeg skal láta þess getið í þessu sambandi, að Framsóknarflokkurinn hefir ekki kosið í fastanefndir með tilliti til þessara mála, þar sem hann óskar sjerstakrar nefndarskipunar um þau. Með skírskotun til þess, að hingað til hefir verið reynt að halda einhverju samkomulagi innan þingsins, að minsta kosti á yfirborðinu, vona jeg, að aðrir flokkar þingsins taki vel í þessa beiðni. Það er sjerstaklega vegna fyrsta málsins, sem jeg nefndi, að jeg legg áherslu á, að þetta verði gert, og gert strax, svo að nú þegar verði auðið að gera ráðstafanir í því máli. Jeg skal enn árjetta, að jeg ber þetta fram af hendi kjósenda minna, sem eru mestmegnis bændur, af hálfu þeirrar stofnunar, sem hefir á hendi kjötsöluna, og þess flokks, sem nýtur mest stuðnings bændastjettarinnar. Jeg ber fram þá ósk fyrir hönd þessara aðilja, að þingmenn í öðrum flokkum vilji vinna með oss að því að leiða þessi mál til farsællegra lykta.