22.02.1924
Neðri deild: 6. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 268 í D-deild Alþingistíðinda. (3150)

24. mál, skipun viðskiptamálanefndar

Bjarni Jónsson:

Það eru aðeins örfá orð út af viðskiftum okkar hv. flm. (TrÞ). Í vandræðunum yfir að breiða yfir vankunnáttu flokks síns í nefndaskipuninni tók hann að hælast um, að jeg hefði ekki náð sæti í fjvn. Tókst honum jafnfimlega með að finna ástæðuna eins og honum hefir yfirleitt tekist með flutning þessa máls. Nú vil jeg þó segja honum rjettu ástæðurnar, úr því hann veit þær ekki áður. Önnur er sú, að sjúkdómur hamlaði einum þm. úr fámennum flokki að sækja fund. Hefði það ekki verið, myndi jeg hafa hlotið sæti í nefndinni sem fyr. Hin ástæðan var þessi, sem jeg hygg þó, að hv. flm. (TrÞ) eigi skamma stund að hælast um, að honum tókst að ná í blessað Mýraljósið.