07.03.1924
Efri deild: 13. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 278 í D-deild Alþingistíðinda. (3161)

64. mál, skrifstofur landsins í Reykjavík

Flm. (Jónas Jónsson):

Af ræðu hv. þm. Seyðf. (JóhJóh) sá jeg það best, að rjett er að samþykkja þessa tillögu, en ekki að vísa henni til stjórnarinnar. Af þessari frásögn hv. þm. Seyðf. (JóhJóh) sá jeg ennfremur, hversu mörgum af starfsmönnum landsins er óljúft að flytja í bankahúsið, en þessi tregða er einmitt aðalástæðan til þess, að tillagan kom fram. Og þegar hv. þm. (JóhJóh) ber það fram sem aðalástæðu, hve erfitt sje fyrir fólk að fara upp á þriðju hæð í húsi, þar sem ekki er lyftivjel, get jeg ekki litið á það öðruvísi en sem spaug. Jeg bý sjálfur á þriðju hæð í húsi, og kvarta ekki, og er þó gamalmenni á mínu heimili.

Mjer finst við ekki mega vera með þennan tepruskap að segja, að við þurfum að hafa lyftivjel, þó að skrifstofa sje á þriðju eða fjórðu hæð í húsi í bæ, þar sem eins er ástatt og hjer, að aðeins mjög fá hús eru há. Það er alt öðru máli að gegna í stórbæ, eins og París, þar sem öll hús eru 5–6 hæðir. Þar væri ógerningur að hafa engar lyftur. En það er ekki mikið að þurfa að ganga upp á þriðju hæð aðeins á einum stað eða fáum í sama bæ, og mjer finst það hreinn og beinn bjánaskapur að vera að setja lyftu í hús eins og Eimskipafjelagshúsið hjer.

Jeg geri því ekkert úr þeim ástæðum, sem hv. þm. (JóhJóh) kom fram með, og álít sannað, að um tregðu sje að ræða, enda gaf hann til kynna, að hann hefði komið fram með mótmæli gegn flutningnum við stjórnina, og stjórnin var svo elskuleg að taka þau mótmæli til greina, og þar finst mjer hún hafa verið óþarflega undanlátssöm.

Þar að auki hefir hv. þm. Seyðf. (JóhJóh) í hyggju að flytja í timburhús í miðbænum. En það reyndist svo í brunanum mikla hjer í Reykjavík, að ómögulegt muni vera að búa svo um peningaskápa í timburhúsi, að standist eldsvoða, því að peningaskápar bráðnuðu þá í slíkum húsum, og skjölin eyðilögðust. Jeg vil því skora á hv. þm. Seyðf. (JóhJóh), vegna hinna mörgu og mikilsverðu skjala, sem hann hefir undir höndum á skrifstofu sinni, að flytja heldur í Landsbankahúsið og skapa með því fordæmi, öðrum til eftirbreytni, svo að húsið verði notað eins og ætlast hefir verið til. Því að þótt hv. 4. landsk. (JM) sje trúaður á umhyggju stjórnarinnar fyrir málinu, þá þarf að herða á stjórninni, því að stjórnin á hægara með að ganga fast fram í að fá menn til að flytja skrifstofur í húsið, ef bein skipun frá þinginu liggur fyrir um, að svo skuli vera.