07.03.1924
Efri deild: 13. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 279 í D-deild Alþingistíðinda. (3162)

64. mál, skrifstofur landsins í Reykjavík

Jóhannes Jóhannesson:

Jeg get ekki annað en efast um, að deildin telji sig bæra um, án rannsóknar, að ákveða, að bæjarfógetaskrifstofan skuli flutt í ákveðna byggingu í bænum, sem máske væri mjög óheppileg fyrir skrifstofuna. Mjer finst þurfa rannsóknar á því atriði, og jeg fyrir mitt leyti get ekki greitt atkvæði með því.

Jeg vil líka biðja hv. þm. að gæta þess, að það er mikill munur á efri hæðunum í Landsbankahúsinu og öðrum húsum, því að neðsta hæðin í honum er á við tvær hæðir í venjulegum húsum, og jeg þekki fólk svo vel, að jeg veit, að því mundi ekki þykja gott að þurfa að klifra svo hátt, í hvert sinn, sem það þyrfti að koma á bæjarfógetaskrifstofuna. Svo er jeg ekki viss um, að Landsbankinn kærði sig um þann umgang, því að fólk þarf oft að koma á skrifstofuna á þeim tíma, sem Landsbankinn er lokaður, einkum er það fyrir kosningar. Til dæmis var það svo heilan mánuð fyrir kosningarnar í haust, að menn voru að koma að kjósa frá því snemma á morgnana og þar til jeg fór að hátta á kvöldin. Og jeg tók á móti þeim, því að jeg vildi liðsinna þessum mönnum, því að annars hefðu þeir, margir að minsta kosti, ekki getað notað kosningarrjett sinn.