07.03.1924
Efri deild: 13. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 281 í D-deild Alþingistíðinda. (3165)

64. mál, skrifstofur landsins í Reykjavík

Guðmundur Ólafsson:

Þetta mál virðist vera eitt af þeim málum, sem mörgum þykir gaman að tala mikið um. Annars get jeg ekki sjeð, hvað getur verið á móti því að samþykkja þessa tillögu, þótt svipuð tillaga væri samþykt hjer í fyrra. En það er þegar upplýst, að tregða er á því að fá menn til að flytja í Landsbankahúsið, og mjer finst, að það væri ilt, ef sú tregða yrði til þess, að plássið yrði ekki að fullu notað. Það hefir komið fram í málinu, að sumir halda því fram, að plássið í Landsbankahúsinu muni ekki vera vel heppilegt fyrir bæjarfógetaskrifstofuna. Jeg fyrir mitt leyti hefi ef til vill ekki nægilegt vit á því, hvernig slík skrifstofa þarf að vera, en jeg býst við því, að sumir meðdeildarmenn mínir gætu dæmt um það. Ef deildin vildi kynna sjer það atriði, væri því ekki annað en að kjósa t. d. 2 menn til þess að rannsaka það. En ef svo færi, að efri hæðir hússins þættu ekki hæfar fyrir skrifstofu bæjarfógeta, og hann vildi ekki flytja þangað, gæti vel farið svo, að aðrir vildu ekki flytja þangað heldur, og væri það illa farið, því að þá yrði máske mikið af efri hæðum hússins að standa autt. Annars finst mjer ekki vera nein hætta á ferðum, þó að tillaga þessi væri samþykt, því að stjórnin mundi samt ekki fara að neyða neinn til að flytja í Landsbankahúsið, ef plássið þætti ekki viðunanlegt. En jeg get ekki skilið, af hverju mótstaðan móti tillögu þessari getur stafað, nema ef það væri af því, hver flm. hennar er.

Jeg er ekki talinn neinn embættavinur, en jeg vil þó ekki neyða hvorki bæjarfógeta eða aðra til að nota vont húspláss, en mjer finst, að rjett mundi að hafa það þannig með þessa tillögu, að frestað væri umr. og henni vísað til nefndar til athugunar, til dæmis fjárveitinganefndar, er bæjarfógeti á sæti í.

Það, sem hv. þm. Seyðf. (JóhJóh) tók fram sem ástæðu gegn því að flytja bæjarfógetaskrifstofuna í Landsbankahúsið, að kjósendur ættu sjerstaklega erfitt með að komast upp svo marga stiga, sem þar þyrfti að ganga, er vitanlega alveg rjett, því að það getur verið erfitt fyrir þá, sem orðnir eru ellihrumir, og þyrftu því að geta fengið að kjósa heima, með vottorðum og aðstoð góðra manna.

Annars sje jeg ekki, að svo mjög muni um að ganga upp einn eða tvo stiga, að það eitt út af fyrir sig sje næg ástæða til að vilja ekki flytja skrifstofuna í Landsbankahúsið. Að minsta kosti tel jeg það ekki vega á móti þeim þægindum, sem að því eru, að hafa hinar opinberu skrifstofur sem flestar í sama húsinu. Annars tel jeg það beina skyldu þingsins að sjá um, að þetta húsrúm sje notað fyrir skrifstofur landsins, heldur en að láta leigja rándýrt húsnæði fyrir þær hingað og þangað úti um bæ.

Húsið í Bröttugötu þekki jeg ekki. En jeg veit, að húsrúm það í pósthúsinu, sem ríkisfjehirðir hefir haft, er vel boðlegt fyrir skrifstofur hverjum sem væri.

Það má vel vera rjett hjá hv. 2. þm. G.-K. (BK), að hægt sje að geyma svo skjöl í timburhúsum, að trygt sje fyrir eldsvoða. En það hefir venjulega sýnt sig, að flestar eða allar slíkar tryggingar hafa reynst ótryggar, þegar eldsvoða hefir borið að höndum.