01.04.1924
Efri deild: 36. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 284 í D-deild Alþingistíðinda. (3170)

111. mál, söfnunarsjóður Íslands

Flm. (Jónas Jónsson):

Í hinni stuttu greinargerð, sem till. þessari fylgir, er gerð grein fyrir því, hvað fyrir mjer vakir. Jeg ætlast til, að af till. leiði, að lögum Söfnunarsjóðsins verði breytt þannig, að hjer eftir verði úr honum eingöngu veitt fasteignalán til sveitabúskaparins, en ekki sjer í lagi til kaupstaðanna, og þá einkum Reykjavíkur, eins og átt hefir sjer stað að undanförnu. Eins og kunnugt er, er veltufje landsins að langmestu leyti bundið í atvinnurekstri kaupstaðanna, og þar sem bæði útgerð og fisksala hefir gengið erfiðlega hin síðari árin, þá hefir það haft ill áhrif á gengi ísl. krónunnar; en hið lága gengi hennar útilokar möguleika veðdeildarinnar til þess að lána nokkurt fje, því að það gerir það að verkum, að illmögulegt er að selja verðbrjef deildarinnar erlendis. Þess vegna hafa sveitirnar orðið útundan með fje til nauðsynlegrar ræktunar landsins, og á meðan verðlag krónunnar er ekki betra en nú, er lítil von á því, að ræktunarbanki geti þrifist, ef byggja þarf starfsemi hans á sölu verðbrjefa erlendis. Þessi sjóður, Söfnunarsjóðurinn, hefir starfað síðan árið 1888, og hefir töluvert fje til umráða. Eftir því sem mjer er best kunnugt, hefir sjóðurinn hingað til langmest lánað fje til húsabygginga í kaupstöðum, með því að þau lán hafa, og það máske með rjettu, verið talin tryggust. Jeg skal síst neita því, að t. d. Reykjavík er í sjálfu sjer engin vanþörf á fje til húsabygginga. Hjer býr fjöldi fólks í aumum húsakynnum. En jeg tel ekki holt að ýta um of undir vöxt bæjanna. Jeg skal játa, að enda þótt öllu handbæru fje sjóðsins væri varið til ræktunar landsins, þá hrykki það skamt; væri raunar aðeins dropi í hafinu, miðað við þörfina. En jeg álít þörf jarðræktarinnar svo brýna, að ekki megi láta nokkurs ófreistað til fjáröflunar, og því legg jeg til, að hæstv. stjórn verði falið að undirbúa þessa breytingu á lögum sjóðsins og leggja fyrir næsta þing.