12.04.1924
Efri deild: 47. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 289 í D-deild Alþingistíðinda. (3174)

111. mál, söfnunarsjóður Íslands

Frsm. meirihl. (Jóhann Jósefsson):

Það er auðvelt bæði að skilja og virða tilgang hv. 5. landsk. (JJ) með því að gerast flytjandi að þáltill., eins og hún var upphaflega á þskj. 247. Og væri ekkert annað atriði till. til fyrirstöðu en spurningin um það, hvort menn vildu unna landbúnaðinum þess að njóta lána af því fje, sem Söfnunarsjóður hefir til umráða, þá mundi mig ekki greina mikið á við hann í þessu máli, og ekki meirihlutann heldur.

Það er hverju orði sannara, að landbúnaðurinn hefir engu að síður þörf á hentugum lánum en annar atvinnurekstur landsmanna. En hv. flm. (JJ) hefir borið niður með breytingu á fyrirkomulagi á miður heppilegum stað.

Hv. flm. (JJ) skýrði nokkuð frá því, hvað í nefndinni hefir verið upplýst um tilgang og starfsemi Söfnunarsjóðsins. Þessi merkilega og einstaka stofnun er orðin nokkuð gömul, því að núgildandi lög hennar eru frá 1888. Höfuðtilgangur sjóðsins er sá, að fá menn til að safna fje, til þess, að það geti ávaxtast og vaxið í framtíðinni.

Til þess að geta fengið sem fylstar upplýsingar um málið, fór nefndin til framkvæmdastjóra sjóðsins. Fyrst og fremst ljet hann það í ljós, að hann væri persónulega hlyntur landbúnaði, og kvaðst altaf hafa látið lánsbeiðnir frá landbúnaði sitja í fyrirrúmi fyrir öðrum. Hann dró engar dulur á það, að jarðarveð væru síst ótryggari en eign í kaupstað, enda hefir meirihluti nefndarinnar ekki vefengt það. Hann lýsti sem sagt yfir því, að þáltill. væri í samræmi við þá stefnu, sem hann hefði altaf fylgt sem framkvæmdastjóri sjóðsins, sem sje, að hlynna að landbúnaðinum með lánum, eftir því, sem unt væri. Yfirlýsing framkvæmdastjórans hefir ekki komið í bága við skoðun neins í nefndinni, svo að jeg hafi orðið var við. Hann taldi vandkvæði á, að lögum sjóðsins yrði breytt, vegna þess, að fjeð, sem lagt er í hann, er óuppsegjanlegt fje undir þeim lögum, sem í gildi eru um sjóðinn, og áleit ekki rjett að breyta lögunum, meðan fje stæði þannig inni. Þá benti hann á annan örðugleika. Svo sem tekið er fram í 19. gr. laganna, er gert ráð fyrir, að þeir, sem fá sjóðnum fje til geymslu, hafi rjett til að setja skilyrði nokkur um, hvernig það sje notað. Væru hendur framkvæmdastjórans algerlega bundnar, eins og þáltill. á þskj. 247 fer fram á, um það, hvernig nota mætti fje sjóðsins, áleit hann, að það gæti orðið til þess, að sjóðurinn misti af fje, sem honum hefði verið ætlað. Þannig yrði þessi ráðstöfun til þess að hindra, að menn söfnuðu fje, og væri það gagnstætt höfuðtilgangi Söfnunarsjóðslaganna.

Á næsta fundi hafði nefndin tal af stofnanda sjóðsins, próf. Eiríki Briem.

Hans tal fjell á líkan veg og framkvæmdastjórans. Skýrði hann frá tilgangi sjóðsins; sagði hann, að í þau 35 ár, sem hann hefði verið í framkvæmdastjórninni, hafi ekki einni einustu lánsbeiðni úr sveit verið neitað. Kvaðst hann hafa haft tilhneigingu til að láta landbúnaðinn sitja í fyrirrúmi. Prófessorinn gat einnig þess, að eftir sínu áliti gætu þeir, sem fje eiga í sjóðnum, krafist þess, að lögum hans yrði ekki breytt innieigendum í óhag. Stofnandi og framkvæmdarstjóri sjóðsins hafa því lýst því yfir, að þeir hafi í verkinu ávalt leitast við að lána úr sjóðnum á þann hátt, sem hv. flm. þáltill. (JJ) óskar, og framkvæmdastjórinn sagðist mundi halda uppteknum hætti í framtíðinni, án nokkurrar skipunar frá þingi eða stjórn. Hjer ber því ekkert á milli annað en það, að hv. flm. (JJ) vill breyta lögum sjóðsins, en þeir, af skiljanlegum „praktiskum“ ástæðum, hafa á móti slíkri breytingu.

Meirihluti nefndarinnar sjer ekki heldur þörf til þess, þegar fyrir liggja yfirlýsingar frá framkvæmdastjórninni um það, hvaða aðferð þeir munu viðhafa í þessu máli í framtíðinni. Ef settar yrðu harðar reglur um, að úr sjóðnum mætti aðeins lána til landbúnaðar, mundi af því leiða töluverðan aukinn kostnað fyrir stjórn hans, með því, að þá yrði óhjákvæmilegt að hafa eftirlit með því, hvernig peningunum væri varið. En það hefir einkent þessa stofnun, hve mikil áhersla hefir verið lögð á að kosta sem allra minstu til við framkvæmdastjórnina. T. d. í 13. gr. laganna er gert ráð fyrir, að forstöðumaður sjóðsins fái enga borgun til að byrja með. Ennfremur er þar tekið fram, að þegar svo langt er komið, að farið er að greiða forstöðumanni nokkuð fyrir verk sitt, eigi hann að setja veð, sem slíkir embættismenn. Meiri hluti nefndarinnar getur því alls ekki talið rjett að breyta lögum sjóðsins, enda fer breytingin á þskj. 332 í bága við hagsmuni eigenda hans.

Hv. 5. landsk. (JJ) sagði spurninguna í þessu máli snúast um það, hvort menn vildu hlynna að landbúnaði eða húsabyggingum í kaupstöðum. Meirihluti nefndarinnar er samþykkur þeirri aðferð, sem stjórn sjóðsins hefir viðhaft um útlán, og þess vegna óskar hann engrar breytingar. Spurningin, sem liggur fyrir, er sú, hvort setja skuli ákvæði í Söfnunarsjóðslögin, sem ríða í bága við frumhugsun laganna, ákvæði, sem hindra höfuðtilgang sjóðsins, þann, að hvetja menn til að geyma og ávaxta fje. En það virðist mjer gert, ef þáltill. á þskj. 247 verður samþykt. Jeg þykist hafa leitt rök að því, að öll breyting laganna er óþörf, þegar yfirlýsingar framkvæmdastjórnarinnar eru teknar til greina.

Eins og jeg tók fram, brýtur þáltill. í bága við 19. gr. Söfnunarsjóðslaganna, þar sem gert er ráð fyrir, að þeir, sem leggja í sjóðinn, megi hafa atkvæðisrjett um, hvernig með það sje farið. Meirihluti nefndarinnar hefir því orðið að leggja til, með vöxt og viðgang sjóðsins fyrir augum, að engin breyting yrði gerð á lögum hans. En hv. flm. (JJ) má vera fullviss um það, að meirihlutinn hefir samúð með hugsun hans, að því er aðhlynningu landbúnaðarins snertir. Persónulega er jeg hv. flm. (JJ) þakklátur fyrir að hafa komið þessari athugun um fyrirkomulag og starfsemi Söfnunarsjóðsins af stað í þessari hv. deild. Þetta varð til þess að gefa okkur tækifæri til að kynnast nánar þessari merkilegu þjóðþrifastofnun, Söfnunarsjóðnum, og hinum göfuga tilgangi stofnanda hans.