12.04.1924
Efri deild: 47. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 293 í D-deild Alþingistíðinda. (3175)

111. mál, söfnunarsjóður Íslands

Sigurður Eggerz:

Jeg er sammála hv. 5. landsk. (JJ) um það, að lánsstofnanir hafa lítið gert fyrir landbúnaðinn. Honum hefir ekki verið sjeð fyrir lánsmöguleikum með hæfilegum kjörum. Að vísu hefir verið stofnað til fasteignabanka, en vegna fjárhagsörðugleika hefir hann ekki komist til framkvæmda ennþá.

Jeg verð að skoða það mjög svo eðlilegt, að þessum sjóði sje aðallega varið til landbúnaðar. En jeg vildi ekki með lögum binda starfsemi hans eingöngu við þann atvinnuveg. Það gæti orðið til að rýra innlegg í sjóðinn. Framkvæmdastjórnin hefir gefið svo ákveðnar yfirlýsingar um það, að hún vildi heldur lána fje sjóðsins til landbúnaðar. Stofnandi sjóðsins ber mjög fyrir brjósti, hvernig honum sje varið í framtíðinni. Það hafði djúp áhrif á mig að heyra, hve mikla trú stofnandi sjóðsins hafði á nytsemi hans í framtíðinni. Það er óblandin ánægja að því að hitta menn, sem leggja eins mikið að sjer með áhugamál sín, og hafa eins fasta trú á því að geta unnið framtíðinni gagn.

Stofnanda sjóðsins virtist falla það þungt, ef lögum hans yrði breytt. Eins og jeg hefi tekið fram, álít jeg rjett, að sjóðurinn starfi aðallega í þarfir landbúnaðar. En hvort breyta megi lögum hans, vil jeg ekki segja ákveðið um að svo stöddu. Þó að núverandi framkvæmdastjórn vilji láta sjóðinn starfa á þennan hátt, sem jeg nefndi, er engin trygging fyrir því, að eftirmenn hennar vilji fara eins að.

Eins og sakir nú standa, vil jeg leggja til, að máli þessu verði vísað til stjórnarinnar, og hún athugaði málið. Jafnframt vil jeg láta það koma mjög skýrt fram hjer í hv. deild, sem þegar hefir komið fram hjá hv. flm. (JJ) og hv. frsm. meirihl. (JJós), að hún álítur tryggilegt að lána út á jarðeignir, og heppilegt að verja sjóðnum sem mest í þarfir landbúnaðarins. Vildi jeg mælast til þess, að hæstv. stjórn athugaði, hvort nokkuð væri því til fyrirstöðu.