12.04.1924
Efri deild: 47. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 298 í D-deild Alþingistíðinda. (3177)

111. mál, söfnunarsjóður Íslands

Forsætisráðherra (JM):

Út af samanburði hv. 5. landsk. (JJ) á því, að komið hafi fyrir bæði fyr og síðar, að ákvæðum gjafabrjefa hafi verið breytt, þá skal jeg geta þess, að þetta er rjett, slíkt hefir komið fyrir. En án þess að jeg ætli mjer að fara langt út í það mál, hvort breyta eigi lögum Söfnunarsjóðsins, skal jeg taka það fram, að þetta tvent er ekki vel sambærilegt. Mjer skilst, að Söfnunarsjóðurinn hafi fengið nokkurskonar sjerleyfi til starfs síns. Hann er stofnun út af fyrir sig og á engan hátt háður landsstjórninni, þó að hann standi að dálitlu leyti undir stjórn þingsins. Með þessu er ekki sagt, að ekki megi undir nokkrum kringumstæðum breyta lögum sjóðsins; en þær breytingar eru ekki sambærilegar við breytingar á gjafabrjefum sjóða, sem standa undir beinu eftirliti stjórnarráðsins. Hjer verður það að athugast vel, að um stofnun er að ræða, sem fengið hefir sjerleyfi, líkt og Íslandsbanki, til þess að rækja starf sitt, og að viðskiftamennirnir hafa fengið með því rjettindi, er ekki verða af þeim tekin. (JJ: En lögum Íslandsbanka hefir oft verið breytt). Já, en það hefir verið gert samkvæmt beiðni bankans sjálfs. Annars býst jeg við því, að ef máli þessu verður vísað til stjórnarinnar, þá muni hún athuga það.