12.04.1924
Efri deild: 47. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 301 í D-deild Alþingistíðinda. (3179)

111. mál, söfnunarsjóður Íslands

Frsm. minnihl. (Jónas Jónsson):

Þó að hæstv. forsrh. (JM) kæmi ekki lengra en að dæmum þeim, sem jeg tók til samanburðar, þá er jeg þakklátur honum fyrir þær skýringar, sem hann gaf til styrktar máli mínu. Hann játaði fyrst og fremst, að dæmi væru til þess, að ákvæðum í gjafaskrám hefði verið breytt. Þó mun enginn sá hlutur til, sem síður ætti að vera hægt að breyta, og enda er það mjög almenn trú, að það sje með öllu óleyfilegt, þó að jeg fyrir mitt leyti hallist að hinni skoðuninni, að gjafaskrám eigi að breyta, þegar ástæða er til. Og hvað er það svo, sem menn færa fram á móti því, að ákvæðum gjafabrjefa sje breytt? Það, að menn verði ófúsari til dánargjafa en ella, alveg eins og nú er sagt, að menn verði tregari til að leggja í Söfnunarsjóðinn, ef þingið skyldi finna upp á því að breyta í formsákvæðum lögum hans. Jeg held nú samt, að hjer muni fara líkt og með dánargjafirnar. Menn gefa þær eftir sem áður, þó að sumum gjafabrjefunum hafi verið breytt, og svo mun verða framvegis, enda þótt dómsmálaráðherra landsins hafi lýst því yfir, að fullkomlega sje leyfilegt að breyta gjafabrjefunum.

Hæstv. forsrh. (JM) sagði, að til mála gæti komið, að lögum Söfnunarsjóðsins yrði breytt, ef óskir um það kæmu frá sjóðnum sjálfum. Mjer er spurn: Hvað er sjóðurinn sjálfur í þessu sambandi? Ekki eru það peningarnir, og varla mun hann eiga við innieigendur. Þá er ekki um annað ræða en stjórn sjóðsins, og liggur mjög nærri að halda því fram, að hún sje Alþingi sjálft, því að það kýs forstjóra sjóðsins, sem annast hin daglegu viðskifti hans. En ef hæstv. forsrh. (JM) á við inneigendur, þá er augljóst, að þeim verður aldrei náð saman til að gera nokkra ályktun í þessum efnum, enda margir þeirra, sem lagt hafa fje í sjóðinn, dánir. Þessi litli samanburðarútúrdúr hefir því skýrt málið talsvert. Það hefir verið sýnt, að fordæmi eru fyrir því, að ákvæðum dánargjafa hefir verið breytt, og er því ekki sjáanlegt, að nokkuð sje fremur því til fyrirstöðu, að lögum þessa sjóðs verði breytt í betra horf, bæði fyrir sjálfan sjóðinn og þjóðina í heild.

Það er mjög ósennilegt, að stofnun, sem er undir yfirstjórn þingsins, geti ekki orðið fyrir áhrifum þaðan. Og hver vill trúa því, að hin sama stofnun, þingið, sem á sínum tíma setti stofnlög sjóðsins og fól sjer sjálfu stjórn hans, sje nú alt í einu orðið ófært um að skifta sjer nokkuð af sjóðnum?

Hv. þm. Vestm. (JJós) þóttist viss um, að mestur hluti sjóðsins væri kominn úr Reykjavík. Þetta getur meira en vel verið. En þó að svo sje, þá fæ jeg ekki betur sjeð en að peningar Reykvíkinga hafi líka gott af því að standa í sem tryggustum eignum.

Jeg hefi nú sýnt, að það er hin mesta fásinna, að þingið sje ekki bært að breyta lögum sjóðsins, þar sem það hefir sett þau, enda varð jeg var við, að hv. þm. Vestm. (JJós) vildi ekki halda því til streitu, að þingið gæti ekki komið fram sem aðili í þessu máli.