12.04.1924
Efri deild: 47. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 304 í D-deild Alþingistíðinda. (3181)

111. mál, söfnunarsjóður Íslands

Sigurður Jónsson:

Í tilefni af því, sem hv. 2. þm. Rang. (EP) sagði, um að menn yrðu að bíða lengi eftir því að fá lán úr Söfnunarsjóði, vil jeg skýra frá því, að jeg hefi komist að raun um, að svo er. Jeg vildi nýlega fá lán úr sjóðnum handa öðrum manni, og átti tal um það við forstjórann, og hann tók vel í að veita lánið, enda var trygging sú góð, sem jeg bauð, en forstjórinn sagði hinsvegar, að jeg gæti ekki fengið lánið fyr en eftir 3 ár. En sökum þess, að það þurfti að fá þetta lán fljótlega, hætti jeg við að fá það hjá Söfnunarsjóðnum. Jeg held, að bændur hafi ekki sóst mikið eftir að fá lán úr sjóðnum, sökum þess hve lengi verður að bíða eftir þeim. Það liggja ekki fyrir neinar skýrslur um, hverjum hafi verið lánað úr sjóðnum, en jeg hygg þó, að lánin hafi aðallega gengið til kaupstaðanna.

Jeg veit vel, að aðaltilgangur sjóðsins er að safna fje, en jeg get ekki sjeð, hvað geti verið því til fyrirstöðu, að jafnmikið fje komi í sjóðinn, þótt honum verði breytt svona. Því að þótt sumir leggi fje í sjóðinn með því skilyrði, að því sje varið á ákveðinn hátt, hygg jeg þó, að sjaldan sjeu stórar upphæðir lagðar inn í hann með slíkum skilyrðum. Og þótt lögum sjóðsins verði breytt svona, og þessvegna verði lánað frekar til landbúnaðarins en verið hefir, þá er það ekki annað en það, sem forstjórar sjóðsins hafa verið að reyna að framkvæma, því að þeir hafa altaf gjarnan viljað lána til landbúnaðarins. Þetta er því aðeins spor í þá átt að ýta frekar undir þá með að gera það. Og það er ekki unt að ætla, að þetta sje á móti hagsmunum sjóðsins, því að ef svo væri, er ósennilegt, að stjórnendurnir hefðu öllu frekar viljað láta fjeð ganga til landbúnaðarins.

Mjer finst engin ástæða til að vísa málinu til stjórnarinnar, enda hygg jeg, að þeir, sem það vilja, geri það aðeins til þess að láta málið fá þægilegan dauðdaga.