12.04.1924
Efri deild: 47. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 306 í D-deild Alþingistíðinda. (3183)

111. mál, söfnunarsjóður Íslands

Björn Kristjánsson:

Jeg vil aðeins segja nokkur orð viðvíkjandi því, sem hjer hefir verið rætt um það, hvort breyta mætti lögum Söfnunarsjóðsins. Það er enginn vafi á því, að það er hægt að breyta þessum lögum eins og öðrum, en spurningin er aðeins þetta: Hver getur afleiðingin orðið af slíkri breytingu? Það er viðurkent, að ekki megi breyta veðdeildarlögum. Og af hverju er það? Það er vitanlega mögulegt að breyta þeim, en þó er viðurkent, að þeim megi ekki breyta, sökum þess, að þeir, sem hafa keypt veðbrjefin, hafa keypt þau með tilliti til þeirra laga, sem giltu um deildina á þeim tíma, og sem þeir höfðu ástæðu til að ætla, að ekki yrði breytt. Og ef þeim væri breytt, mundi afleiðingin verða sú, að enginn mundi þora að byggja neitt á veðbrjefunum. (JJ: En ef breytingin hefði í för með sjer aukna tryggingu?) Hvað tryggingunni viðvíkur, þá kem jeg að því máli seinna, og ætla því ekki að fara út í það nú. — Eins mundi verða, ef breyta ætti lögum Söfnunarsjóðsins. En það væri ennþá hættulegra að breyta lögum hans, sökum þess, að það fje, sem lagt er inn í hann, er óuppsegjanlegt, og er lagt inn í hann í því trausti, að lögum hans verði ekki breytt.

Það var talað um það áðan, að málaferli gætu risið út af því, ef lögum sjóðsins væri breytt. En þótt svo færi, þá er það ekki svo mikil hætta fyrir sjóðinn. Hitt er hættulegra fyrir hann, ef það yrði til þess, að menn hættu að leggja fje í sjóðinn, sökum þess, að þeir hættu að treysta honum. Og þar að auki finst mjer ekki óhugsanlegt, að þeir menn, sem lagt hafa fje óuppsegjanlega inn í sjóðinn, geti sagt því upp, ef lögum hans er breytt. Í þessu tvennu liggur aðalhættan.

Þeirri staðhæfingu, að jarðir í sveit sjeu yfirleitt betri veð en húseignir í kaupstöðum, og verið sje með þessu að bæta tryggingar þær, sem Söfnunarsjóðurinn fær fyrir lánum sínum, er margsvarað, bæði af hv. frsm. meirihl. (JJós) og fleirum.

Þeir, sem leggja fje í sjóðinn með því skilyrði, að það sje lánað út á hús í kaupstöðum, hættu að leggja fje í hann, ef slík breyting sem þessi kemst á, og því er með henni brotið í bága við aðaltilgang sjóðsins, að safna fje.

Þótt því sje haldið fram, að jarðarveð sjeu betri en veð í húsum, þá held jeg þó, að ekki sje hægt annað að segja en að veð í húsum sjeu fulltrygg. Og ef aðeins er lánað 1/3 – 2/5 virðingarverðs húsa út á þau, þá held jeg sje alveg eins mikil trygging í þeim eins og jörðum, þegar lánað er út á þær ½ virðingarverðs, eins og veðdeild Landsbankans hefir gert. Enda mundi Söfnunarsjóðurinn eða veðdeildin ekki hafa lánað út á húseignir, ef þau hefðu ekki talið þær fulltrygg veð.

Ef brtt. á þskj. 332 verður samþykt, þá er ætlast til, að aðeins verði lánað úr honum út á jarðarveð, en ekkert ákveðið um, til hvers fjenu skuli varið. Það er þó meira vit í þáltill. upphaflegu, því að samkvæmt henni er ætlast til, að sjóðurinn láni til ákveðinna fyrirtækja, sem sje ræktunar í sveit, endurbyggingar sveitabæja og til nýbýla. En hvaða trygging er fyrir því, að lánin gangi til eflingar landbúnaði, þó að þau sjeu fengin út á jarðarveð? Hún er alls engin. Það er sem sje alkunnugt, að menn hafa oft tekið lán út á jarðir í sveitum til þess að kaupa hluti í útgerðarfjelögum eða öðru slíku, eða jafnvel lagt fjeð í verslunarbrask.

Nú stendur líka svo á, að verið er að gera ýmsar tilraunir til þess að útvega landbúnaðinum fje. Árið 1921 var stofnaður ríkisveðbanki, sem átti að vera aðallega fyrir landbúnaðinn. Og nú er á leiðinni frv. um að stofna búnaðarlánadeild við Landsbankann. Og um það má þó segja, að dálítið munar um það. Þó held jeg, að besta leiðin til að útvega landbúnaðinum rekstrarfje, væri að stofna 5. veðdeild við Landsbankann, eða samlagslánsfjelag fyrir bændur.

Jeg hefi svo ekki mikið meira um þetta mál að segja. Málið er orðið vel rætt, og það er búið að segja flest, sem segja þarf.

Hv. 2. þm Rang. (EP) sagði, að Ræktunarsjóður Íslands og veðdeildin væru í raun og veru ekki lengur til. Í því sambandi vil jeg geta þess, að Ræktunarsjóðurinn er ennþá til og lánar. En að veðdeildin er ekki starfandi nú, er eingöngu Alþingi að kenna. Ef þingið vildi, mætti láta hana starfa eins og áður.