12.04.1924
Efri deild: 47. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 313 í D-deild Alþingistíðinda. (3186)

111. mál, söfnunarsjóður Íslands

Sigurður Eggerz:

Óþarfi er að bregða mjer um ræktarleysi við landbúnað vorn. Þykist jeg hafa sýnt velvilja minn til hans í verki, á þingi og utan þings. Hefi jeg bent á, að þótt búið væri að stofna fasteignabanka, væri hann ennþá aðeins dauður bókstafur. Þingtíðindin sýna, að jeg barðist fyrir stofnun hans, enda var sá tími álitinn hentugur til stofnunar bankans. Býst jeg við, að hv. þm. A.-Hún. (GÓ) verði að viðurkenna þetta. Finnast mjer ákúrur hans í garð þingsins óþarfar. Yfirleitt hefir þingið tekið mjög vel málum landbúnaðarins, og gæti jeg fundið ótal dæmi því til stuðnings. Tel jeg einnig landbúnaðinum sýndan velvilja, þar sem lagt er til að vísa þessu máli til stjórnarinnar, með tilmælum um, að sjerstaklega verði lánað úr sjóðnum til landbúnaðar. Vona jeg því, að hv. flm. (JJ) geti sætt sig við till. mína, með þeim rökum, sem jeg hefi fært fyrir henni.